Námskeið á Vorönn 2026!

Nú fer allt að verða tilbúið fyrir námskeið komandi vetrar! Nú þegar er hafin skráning í verklega hluta á knapamerki 3-5 sem hefst í desember og á næstu vikum munum við auglýsa og opna fyrir skráningu á þau námskeið sem hefjast eftir áramót!🤩 Vonandi eru þið jafn spennt og við fyrir komandi vetri!

Námskeið fyrir alla aldurshópa:

Bland í poka

Bland í poka er nýtt námskeið sem hefur göngu sína í vetur! Námskeið fyrir alla sem vilja kynnast fjölbreyttum hliðum hestamennskunnar! Hér fá nemendur tækifæri til að vinna með alls konar reiðkennurum og mismunandi þema er eftir vikum! Til hvers að einblína á eitthvað eitt þegar hægt er að prófa fleira?

Meðal þess sem farið verður yfir er vinna við hendi, sætisæfingar, grunnþjálfun gangtegunda, liberty þjálfun, þjálfun fyrir keppni, vinna með brokkspírur og fleira spennandi! Kennt er í 45 mínútur í senn og eru 3-4 saman í hóp.

Hefst: 13.janúar

Kennarar verða birtir síðar

Vinna við hendi

Vinna við hendi námskeiðið er frábært fyrir þá sem vilja aðstoð með að vinna með hestinn í hendi! Vinna við hendi meðal annars eykur samspil manns og hests, liðkar og mýkir og skerpir á ábendingum!

Kennsla fer fram aðra hvora viku í Blíðubakkahöllinni

Hefst: 29.janúar

Kennari: Ingunn Birna Ingólfsdóttir

Einkatímapakkar

Einkatímar verða kenndir á þriðjudögum milli 18-19 og miðvikudögum milli 18-20 í Blíðubakkahúsinu. Fjöldi kennara verða í boði svo allir ættu að geta fundið kennara við sitt hæfi! Einkatímapakkarnir eru 5x30mínútur

Kennaralisti verður birtur síðar

Knapamerki 1-5

Knapamerkin eru frábær grunnur fyrir alla sem stunda hestamennsku en þar er farið stigskipt yfir ferlið að þjálfa og byggja upp reiðhest.

Námskeið fyrir yngri flokka:

Keppnisnámskeið Yngri flokka

Námskeið sem hentar öllum nemendum í yngri flokkum sem stefna á þátttöku í keppni. 30 mínútna einkatímar einu sinni í viku í allan vetur! Sérlega góður undirbúningur fyrir knapa sem stefna á Landsmót næsta sumar!

Hefst 12.janúar

Kennarar birtir síðar

Pollanámskeið

Pollanámskeiðin verða að sjálfsögðu á sínum stað en þar er nemendum skipt í hópa eftir getu/aldri og ættu því allir krakkar undir 10 ára að finna eitthvað við sitt hæfi!

Hefst 22.janúar

Kennari birtur síðar

Námskeið fyrir fullorðna:

Töltnámskeið

Hið sívinsæla töltnámskeið með Ingunni Birnu verður á sínum stað! Frábært fyrir knapa sem vilja aðstoð með að þjálfa sinn hest á uppbyggilegan hátt með áherslu á tölt! Námskeiðið er í formi hópatíma og verður kennt á föstudögum. Námskeiðið verður ekki í hverri viku sem gefur nemendum góðan tíma til að æfa sig heima á milli tíma.

Hefst 16.janúar

Kennari: Ingunn Birna Ingólfsdóttir

Keppnisnámskeið fullorðinna

Námskeið í formi 30 mínútna einkatíma einu sinni í viku! Frábært fyrir alla sem stefna á þátttöku í keppni og vilja einstaklingsmiðaða kennslu yfir tímabilið!

Hefst 14.janúar

Kennari: Ylfa Guðrún Svafarsdóttir

Að sjálfsögðu birt með fyrirvara um breytingar og mannleg mistök!

Ef einhverjar spurningar vakna endilega sendið fyrirspurn á This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. (Thelma)

 

 

581848321_1426232232845493_3217205933230360142_n.jpg

 

Keppnisnám Reiðmannsins – Skráning hafin! 

Skráning opnaði í dag, 11. nóvember!

Frábært tækifæri fyrir:

🐴vana keppnisknapa sem vilja efla þekkingu sína

🐎vana reiðmenn sem langar að stíga sín fyrstu skref í keppni

Námið býður upp á einstaklingsmiðaða kennslu frá reyndum reiðkennurum og keppnisknöpum — með góðri leiðsögn og sterku utanumhaldi.

⚠️Takmörkuð pláss á hverjum kennslustað – tryggðu þér sæti í dag!

👉Skráðu þig hér: https://endurmenntun.lbhi.is/keppnisnam/

Landbúnaðarháskóli Íslands

 

Keppnisnam2025.jpg

 

Íþróttakarl og Íþróttakona Harðar 2025

Nú er komið að tilnefningu Harðar til íþróttakonu og íþróttakarls Mosfellsbæjar 2025.

Viðkomandi eru jafnframt íþróttafólk Harðar fyrir árið 2025.

Við biðjum félagsmenn að senda inn tillögur á This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. til síðasta lagi 14. nóvember 2025.

Reglur
Þeir sem eru gjaldgengir sem íþróttafólk Mosfellsbæjar skulu koma úr röðum starfandi íþróttafélaga /deilda í bæjarfélaginu eða eru með lögheimili í Mosfellsbæ en stunda íþrótt sína utan sveitarfélagsins.
Komi útnefning frá tveimur félögum í sömu íþróttagrein má nefndin leita til sérsambands ÍSÍ um álit.
Tilnefna skal tvo einstaklinga (konu og karl) sem fulltrúa félags/deildar í kjöri til íþróttakonu og íþróttakarls

Með tilnefningunni skal fylgja texti þar sem tilgreint er:
• Helstu afrek ársins, með félagsliði eða sem einstaklingur.
• Æfingamagn, ástundun, félagsleg færni og annað sem á erindi í textann um viðkomandi einstakling.
• Mynd af viðkomandi íþróttamanni.
• Símanúmer og netfang hjá viðkomandi.
• Greinagerðin skal að hámarki vera um 80 orð.
Ítrekum sérstaklega að hafa góðan texta og góða mynd! Reglur um kjör íþróttafólks Mosfellsbæjar.

Viðmið til afreksverðlauna Harðar.
mos.jpg




 

 

Knapaþjálfun með Bergrúnu

🏋️Knapaþjálfun með Bergrúnu 🏋️

29.-30.nóvember

Hestaíþróttir eru ekki frábrugðnar öðrum íþróttum, að því leyti, að til þess að hámarksárangur náist þurfa hestur og knapi að vera í góðu líkamlegu ástandi. Markmið í þjálfun hesta er fyrst og fremst að auka endingu þeirra og að þeir geti stöðugt verið að bæta sig. Þegar kemur að knöpunum sjálfum er ekki síður mikilvægt að huga að sama markmiði.

Bergrún er Reiðkennari frá Háskólanum á Hólum ásamt því að vera Einkaþjálfari frá ÍAK. Hún kenndi Knapaþjálfun við Háskólann á Hólum í fjögur ár og var einmitt hluti af því teymi sem sá um að þróa áfangann.

Með Knapaþjálfun leggur hún áherslu á líkamsbeitingu knapans með og án hests. Aðstoðar viðkomandi knapa við að finna sína styrkleika og bæta veikleika sem kunna að hafa áhrif á reiðmennsku viðkomandi. Hún horfir mikið til líkamsstöðu, samhæfinguar og hvernig hægt er að bæta sig á hestbaki einfaldlega með því að vera meira meðvitaður um hvað má betur fara.

Helgarnámskeiðin er hugsuð þannig að nemandinn fái sem flest "verkfæri" til að bæta líkamsbeytingu sína, bæði á hestbaki en líka í gegnum æfingar/ æfingatækni sem hægt er að nota heima og/eða í ræktinni.

Innifalið í námskeiðinu er:

Fyrirlestur

- Líkamsstöðugreining

- 2x Einkatímar á baki

- Einn léttur æfingatími

Námskeið sem þú mátt ekki missa af !

Skráning er hafin inn á https://www.abler.io/shop/hfhordur

Skráningu lýkur miðvikudaginn 26.nóvember klukkan 22:00

Aldurstakmark miðast við 14 ára (fædd 2011)

Verð: 27.500kr

aabberg.jpg

 

 

Skýrsla stjórnar 2025

Stjórn hestamannafélagsins Harðar:

Formaður:

Jón Geir Sigurbjörnsson                                     Kjörinn 2024

Aðalstjórn:

Anna Lísa Guðmundsdóttir                                           Kjörin   2023

Ingibjörg Ásta Guðmundsdóttir                                  Kjörin   2023

Einar Franz                                                              Kjörinn 2023

Berghildur Ásdís Stefánsdóttir                                     Kjörin 2023

Margrét Dögg Halldórsdóttir                                                  Kjörin 2024

Hermann Jónsson                                                            Kjörinn 2024

Ragnhildur B. Traustadóttir                                           Kjörin 2024

Ragnheiður Þorvaldsdóttir                                            Kjörin 2024

Áheyrnarfulltrúi:

Kristján Arason

Skoðunarmenn reikninga:

Sveinfríður Ólafsdóttir

Þröstur Karlsson


 

Starfið

Hestamannafélagið Hörður telur í dag rétt tæplega 600 félagsmenn. 

Félagið stendur vel fjárhagslega og er rekstur í nokkuð föstum skorðum.  Íþróttafélag er ekki fyrirtæki og það koma margir að svona rekstri.  Stjórn er samstíga og hefur samstarfið gengið vel á liðnu starfsári

Að venju fundaði stjórn mánaðarlega og fór yfir mál félagsins og hugmyndir að áframhaldandi starfi. Nefndir starfa mjög sjálfstætt og hafa flestar verið virkari nú en oft áður, enda gaman að starfa í nefnd og hafa áhrif á það sem gerist í félaginu.

Starfsmenn félagsins á árinu voru sem fyrr Rúnar Geir Sigurpálsson framkvæmdastjóri í 50 % starfi, hann sér m.a. um reiðhöllina, hringvellina og allar framkvæmdir á vegum félagsins.

 Sonja Noack einnig í 50 % starfi, hún sér um samskipti við nefndir, skráningar í Sportabler, útleigu á reiðhöllinni, sendir út reikninga, skilar skýrslum og sinnir dags daglegum skrifstofustörfum o.fl.

Thelma Rut Davíðsdóttir starfar sem yfirreiðkennari félagsins og tók við því starfi síðast liðið haust.  Sinnir hún skipulagningu reiðnáms á vegum félagsins og ber ábyrgð á uppbyggingu þess.

Guðrún Magnúsdóttir sér enn um útleigu á Harðarbóli og starfar við veislur þar og þrif að auki.  Grettir Börkur Guðmundsson kom svo inn í einstök verkefni til aðstoðar Rúnari, bæði við endurbætur á keppnisvöllunum og annað tilfallandi viðhald.

Eins og áður var töluvert fundað með stjórnendum og starfsmönnum Mosfellsbæjar en einnig send formleg erindi til bæjarráðs til að vinna stærri mál og koma þeim formlega á dagskrá.

Þar ber helst að nefna.

Áform um stækkun golfvallar á Blikastaðarnesi.

Félagið sendi inn greinargóða umsögn um tillögu að  skipulagslýsingu vegna stækkunar austurhluta Hlíðarvalla. Þar var aukin hætta á reiðvegi greind samhliða þessu breytingum, þar sem bæði nálægð og aukin umferð yfir og í námunda við reiðveginn breytist við þessa stækkun. Síðan hafa verið haldnir nokkrir fundir með bænum þar sem við höfum áréttað kröfur okkar um að öryggi reiðmanna sé tryggt og gæði reiðleiðarinnar séu ekki rýrð. Þessir fundir hafa verið teknir með starfsmönnum bæjarins og einn fundur sem bæði bæjarstarfsmenn og talsmenn golfklúbbsins sátu. Það var von okkar að þetta myndi skila sér í breyttum tillögum í útfærslu á reiðleið um þessa stækkun golfvallarins.

Nú í október vorum við svo boðuð á fund með bæjarstjóra, sviðsstjóra umhverfissviðs, skipulagsfulltrúa bæjarins, formanns skipulagsnefndar og sviðsstjóra menningar-, íþrótta- og lýðheilsumála. Þar var okkur kynnt sú tillaga sem leggja á fram til breytingar á aðalskipulagi. Okkur til mikilla vonbrigða er sú tillaga sem þar liggur fyrir, nánast sú sama og kynnt var í upphafi, með lítils háttar breytingum. Enn er nálægð við reiðleið of mikil að okkar mati og ekki hefur verið tekið tillit til þeirra sjónarmiða sem við höfum borið á borð.

 Formaður hefur því óskað eftir fundi með oddvitum allra flokka í bæjarstjórn til að fara yfir málið og árétta þau sjónarmið sem við höfum haldið á lofti allt frá því að málið var kynnt okkur fyrst.

Við munum því halda áfram að vinna í að halda okkar sjónarmiðum á lofti og tryggja að þau komi skýrt til skila til allra sem að þessu máli koma hjá bænum.

Jafnframt sátu formaður félagsins og formaður reiðveganefndar í starfshópi um reiðvegi í Mosfellsbæ með starfmönnum  bæjarins og verður farið yfir það hér síðar í skýrslunni.

Samstarfssamningur félagsins við Mosfellsbæ var endurnýjaður og undirritaður á vordögum og er hann í samræmi við samninga við önnur íþróttafélög í bæjarfélaginu og við síðustu samninga.

Vetrarstarfið var með hefðbundnu sniði og nokkuð öflugt, námskeið hófust strax fyrir áramót og fjölgaði svo jafnt og þétt yfir veturinn. Vetrarmótin með hefðbundnu sniði og áframhald á  æfingamótum (tölumótum) þar sem ekki eru riðin úrslit og knapar fá skriflega umsögn dómara. 

Á gamlársdag var að venju riðið í Varmadal þar sem húsráðendur tóku vel á móti okkur, nú i nýrri glæsilegri skemmu, ekki væsti um Harðarfólk þar.  Þessi reið er frábærlega skemmtileg hefð sem við höldum á lofti.

Kótilettukvöldið góða var haldið í janúar og var mjög vel sótt, árshátíðin í mars var einnig vel sótt og félagsmenn skemmtu sér konunglega.

Íþróttakona og íþróttakarl Harðar 2024 voru þau Tara Lovísa Karlsdóttir og Benedikt Ólafsson. En þau náðu bæði góðum árangri árið 2024.

Kvennareiðarnefndin blómstraði sem áður, margar skemmtilegar uppákomur og reiðtúrar á árinu. Hnakkakynning, stuttir reiðtúrar úr hverfinu og reiðtúr um Þingvelli voru á boðstólnum í ár.

Kynbótanefnd heiðraði hæst dæmdu kynbótahross í eigu félagsmanna og stóð fyrir bæði fyrirlestri um kynbótadóma síðasta árs auk sérleg vel heppnaðri kynbótarferð í febrúar. En þá voru 3 hrossaræktarbú heimsótt á Suðurlandi, Margrétarhof, Skeiðvellir og Sumarliðabær, veðrið lék við okkur og mikil ánægja var með ferðina.

Í vor var hreinsunardagur á sínum stað, einstaklega vel mætt í hann.

Ferðnefndin stóð fyrir 4 viðburðum á síðasta starfári, þar er fyrst að nefnda hin hefðbundnu Fáksreið og móttöku Fáksfélaga til okkar í Herði. Náttúrureið, en að þessu sinni var riðið í Helgadal. Síðan stóð nefndin fyrir vel sóttri 4 daga Kjósareið, hátt í 30 knapar og 50 hross fóru í þá ferð. Í fyrsta legg var riðið úr hverfinu og að Skrauthólum á Kjalarnesi, annar leggur var frá Skrauthólum að Miðdal, þriðji leggur frá Miðdal að Hrosshóli í Kjós og í fjórða og síðasta legg var riðið frá Hrosshóli í heimahagana um Svínaskarð. Skemmtilegur viðburður sem þátttakendur voru sammála um að bæri að festa í sessi.

Umsýsla félagshesthúss hefur tekið breytingum síðustu ár vegna dræmrar þátttöku. Fyrirkomulaginu var breytt, þannig að styrkurinn skyldi ekki að einskorðast við leigu á plássi í Blíðubakkahúsinu heldur mátti sækja um sambærilegan styrk til leigu á plássi annarsstaðar í hverfinu. Engin umsókn barst eftir að sú breyting var gerð. Það er erfitt að segja til um hvers vegna áhugi á félagshúsi fer svona minnkandi, en stjórn er að skoða aðrar leiðir til að sinna þessu mikilvæga starfi.  Það verður kynnt þegar komin er mynd á það. Það verður að minnsta kosti haldið áfram að bjóða upp á þennan kost í einhverri mynd sem hentar og Mosfellsbær styrkir það verkefni sérstaklega.

Hópur heldri hestamanna og kvenna er að vanda öflugur og vel sóttir allir þeirra viðburðir.

Fasteignir

Rekstur reiðhallarinnar gengur vel og var töluverð útleiga á henni síðasta vetur, FMos með kennslu líkt og áður og námskeiðahald fyrir félagsmenn. Hópur félagsmanna stundaði nám í Reiðmanninum hérna og er þegar orðið framhald á því námi. Gólfið fékk heildar yfirhalningu nú á haust mánuðum, eldra gólfefni var mokað í burtu, bæði sandi og skeljasandi keyrt inn og þar ofan á gólfflís. Jafnframt voru dúkur á böttum endurnýjaður og þrifnir sérstaklega. Það er samróma álit allra að loftgæðin í höllinni hafi batnað mikið við þessa framkvæmd og gólfið sé mjög gott til þjálfunar.

Rukkað var fyrir auglýsingaskilti í reiðhöllinni samkvæmt samningum.   Virkir lyklar að reiðhöllinni eru um það bil 150 og aðsókn á námskeið skiptist nokkuð jafnt niður á aldurshópa.

Um 70 fullorðnir sóttu námskeið og ríflega 50 börn og unglingar. 

Meistaradeild æskunnar hélt gæðingalistar mót deildarinnar hér og fór það vel fram, væntanlega viðburður sem kominn er til að vera og þykir reiðhöllin okkar henta vel til þessa móts. Jafnframt hélt Meistardeild ungmenna T2 mót og fór það fram með miklum glæsibrag. Það er gaman að fá þessar tvær deildir í heimsókn til okkar og þar sést krafturinn og fagmennskan vel í ungum og efnilegum knöpum.

Til að tryggja aðgengi lyklahafa að reiðhöllinni á háannatímum var leitast við að halda allri höllinni opinni milli 17-19 og var mikil ánægja með þá tilhögun, sem og með svokallaða fókustíma. Auðvitað kallar þetta á að sum námskeið fóru fram seinna en áður, en stjórn taldi mikilvægt að tryggja aðgengi lyklahafa á háanna tíma í svartasta skammdeginu. Jafnframt var reiðskemman hjá Blíðubakkahúsinu leigð, bæði fyrir kennslu og opna tíma og léttir það á stóru höllinni okkar.

Harðarból var í útleigu líkt og áður og smálegu viðhaldi þar sinnt.  Nú standa yfir framkvæmdir við uppsetningu a loftadúk, sem bæta a hljóðvist í salnum og ætlunin að klára loft i viðbyggingu nú fyrir Hrossakjötsveislu Áttavilltra.

Umhverfi

Stjórn samþykkti að fela Ingibjörgu Ástu og Marteini Magnússyni að vinna úttekt og tillögur að því hvernig mætti fegra umhverfið okkar hérna í hverfinu. Miðar þeirri vinnu vel og verður kynnt félagsmönnunum fljótlega.

Beit var úthlutað venju samkvæmt,  um 90 aðilar eru með beitarhólf á vegum félagsins.  Eitt hólf var girt nýtt, annars hefur hólfum ekki verið breytt frekar en undanfarin ár. Beitargjald var það sama og í fyrra.  Skil á hólfum voru í ágætu lagi, einhverjar smá athugasemdir en leyft var að hefja beit fyrr en oft áður.  Sú óvenjulega staða kom upp að allir sem vildu fengu hólf, enginn biðlisti þegar lokið var við úthlutun.

Það gætir ennþá hjá sumum misskilnings með að beitarhólf á vegum félagsins séu sumarbeit fyrir alla hesta viðkomandi og geti farið stækkandi með fjölgun hrossa, það getur aldrei orðið.  Hólfin eru ætluð undir reiðhesta, að ákveðnu marki, til að fólk geti nýtt hrossin sín hér í nágrenninu að sumarlagi. Við úthlutun er reynt að höfða til þess að við sem samfélag njótum þessara hlunninda sem flest, þó takmörkuð séu.  Það er forgangsmál að skaffa fleirum beit en ekki að auka við beit hjá einstaka aðilum. 

Vaktaskipting gekk ágætlega, fólk aðeins misduglegt að vera við þegar það er á vakt, sem er bagalegt.  Ekkert varð af fyrirhuguðu námskeiði um rafmagnsgirðingar, það kemst kannski seinna á dagskrá en þau mál voru þó í betra lagi en oft áður.

Reiðleiðir

Starfshópur um reiðvegi í Mosfellsbæ.

Í kjölfar bréfs hestamannafélagsins þar sem við fórum fram á að bærinn tæki yfir allt viðhald á reiðvegum í ljósi þess hversu snúin leyfismál eru oft á köflum í slíkum framkvæmdum, var stofnaður starfshópur á vegum Mosfellsbæjar sem hafði það að markmiði að skilgreina reiðstíga og reiðslóða, forgangsraða reiðleiðum með tilliti til viðhalds, meta viðhaldsþörf og skila til bæjarráðs heildarúttekt. Fyrir hönd hestamannafélagsins sat formaður félagsins og formaður reiðveganefndar í nefndinni. Nefndi starfaði allan síðasta vetur og fram á haustmánuði.

Niðurstaðan var sú að reiðvegir voru kortlagðir og þeim forgangsraðað eftir notkun. Í hæsta forgang fóru þær reiðleiðir sem liggja næst hesthúsahverfinu: Tungubakkahringur, Blikastaðanes og reiðleiðin upp að Stekkjaflöt. Forgangur 1 þýðir að þörf er að lýsingu, lámarksbreidd, vetrarþjónustu og reglulegu viðhaldi á yfirborðslagi.

Í flokk tvö voru svo reiðleiðirnar upp í Mosfellsdal, Ístakshringur, leiðin að Hafravatni inn á Hólmsheiði, Skammidalur, og leiðinni frá Blikastöðum áfram til Reykjavíkur.

Í flokk 3 fóru svo aðrar leiðir sem liggja meira í útjaðri bæjarlandsins.

Ætlunin er að halda ítarlegri kynningu á starfi og samantekt starfshópsins innan tíðar.

Merk tímamót áttu sér stað síðasta haust þegar byrjað var á fyrst áfang lýsingar á Tungubakkahringnum. Fyrst áfanginn nær frá hesthúshverfinu og að Tunguvegi. Handsalaði hestmannafélagið og formaður bæjarráðs samkomulag um áframhald þessara framkvæmda, en ráðast átti í næsta áfanga á haustmánuðum 2025. Að þeirri vinnu hefur ekki orðið en, bæjarráð samþykkti á fundi að sínum 16.október að ráðist yrði verðkönnun og í framkvæmd áfanga 2. Í öðrum áfanga verða lagðir ljósastaurar á 1.800 metra kafla frá stígamótum að Leirvogstungu meðfram flugvelli.

Auk hefðbundins viðhalds á reiðleið og lagfæringa vegna mikilla vatnavaxta í febrúar og mars, varð okkur töluvert ágengt í lagningu og lagfæringum á reiðleiðum og var sú vinna leidd af reiðveganefnd. Þar má nefna, nýja reiðleið lögð af Vegagerðinni frá Hafravatnsvegi að Óskotsvegi og er þetta mikið öryggismál fyrir okkur hestamenn, þar sem bundið slitlag var lagt á þennan kafla fyrir nokkrum árum og þar með hefur umferðahraði aukist verulega með tilheyrandi hættum.

 

Ýmislegt

Skýrslur frá nefndum félagsins eru komnar á heimasíðu félagsins (eða eru á leiðinni), þar verða líka birtir ársreikningar, skýrsla stjórnar og fundargerð aðalfundar að honum loknum. 

Hugleiðing formanns

Það hefur verið gott og gaman að vinna með félagsmönnum og stjórn þetta síðasta starfsár. Það er kraftur og þróttur í okkar fólki, þó stundum vinnist þetta á fáum höndum. Það er hlutverk okkar allra að virkja sem flesta til að taka þátt og leggja hönd á plógin í starfinu, því næg eru verkefnin.

Það er vilji okkar í stjórn að halda áfram að styðja við og styrkja það íþróttastarfs sem fram fer í félaginu og lyfta því enn hærra plan . Við viljum sjá meiri samfellu í starfinu okkar og byrja það fyrr á árinu, þannig að hestaíþróttin geti orðið raunverulegt val fyrir börn sem íþrótt, auka samstarfs við reiðskólana okkar svæðinu til að stuðla að nýliðun og horfa breitt yfir sviðið til að styrkja okkar góða sport enn frekar.

Það er klárlega þrengt að okkur á margan hátt, til dæmis að okkar reiðvegum, sem  eru okkar íþróttarmannvirki. En það er trú mín að hestmennskan eigi mjög vel heima í þéttbýli og því þurfum að leita allra leið að halda því lofti og tryggja að sjónarmið okkar séu sjáanleg þegar unnið er í breytingum á okkar nærumhverfi.

Félagsstarfið okkar er fjölbreytt og þannig á það líka að vera í okkar öfluga félagi, því eitt hentar ekki öllum og það er nægt rými fyrir alla hestamenn í Mosfellsbæ í hestamannfélaginu Herði.

Umsjónaraðili í félagshesthúsi óskast.

Hestamannafélagið Hörður óskar eftir metnaðarfullum einstaklingi til að taka við umsjón á félagshesthúsi Harðar. Starfið er kjörið fyrir þá sem eru með mikla reynslu í hestum og hafa áhuga á að miðla þeirri þekkingu áfram til unga fólks, hafa þekkingu á námskeiðahaldi og færni í samskiptum. Um er að ræða hlutastarf greitt í tímavinnu og vinnutími er eftir samkomulagi.  Reiknað er með fastri viðveru 2 tíma á viku.  Ekki er um reiðkennslu að ræða.

Aldurstakmark er 20 ára.

Tímabilið er frá janúar til maí loka.

Helstu verkefni og ábyrgð:

- Umsjónaraðili sér um samskipti við þátttakendur félagshesthússins og aðstandendur þeirra

- Skipulag ýmissa viðburða í samstarfi við æskulýðsnefnd eins og hindrunarstökksnámskeið, ratleik, þrifadag og fleira.

- Hjálpa þáttakendum í félagshesthúsinu við allt tilfallandi í hesthúsinu. Allt frá að aðstoða við að fara í reiðtúr til að leiðbeina við skítmokstur, spónamagn og aðra umhirðu, meðferð reiðtygja og svo framvegis..

Áhugasamir hafi samband við Sonju í síma 8659651 eða á This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. sem allra fyrst.

aaaakna.jpg

 

Pop-Up Gangskiptingar!

Sunnudaginn næstkomandi 9.nóvember er næsta Pop-Up námskeið vetrarins!

Pop-Up námskeið eru eins dags námskeið það sem þema námskeiðsins er breytilegt eftir tímum! Skráð er í hvern tíma fyrir sig og hver tími er auglýstur hverju sinni.

Gangskiptingar og Hraðabreytingar eru lykillinn að betri gangtegundum. En hvernig geri ég góðar gangskiptingar? Í þessum tíma ætlum við að búta niður þessi hugtök sem virka svo flókin og nálgast markmiðin skref fyrir skref: Gera frábæra gangskiptingar og Hraðabreytingar.

Þetta námskeið er í boði fyrir fólk á öllum aldri! Tímarnir eru um 45 mínútur og skipt verður í hópa eftir skráningu.

Skráning er hafin inn á https://www.abler.io/shop/hfhordur og lýkur laugardaginn 8.nóvember klukkan 12:00

Verð (>21): 3000kr

Verð (<21): 2000kr

Kennari: Fredrica Fagerlund

aaaa574572835_1418334530301930_4402488115729047965_n.jpg

 

 

ÁRSSKÝRSLA FRÆÐSLUNEFNDAR FATLAÐRA 2024-2025

Haldin voru námskeið 4 til 5 sinnum í viku yfir veturinn en leyfilegur hámarksfjöldi nemenda á námskeiði eru 5, en ef um mikið fatlaða nemendur eru að ræða þá er nemendum fækkað niður í 4.
Námskeiðin voru alla jafna vel sótt. Sex nemendur þurftu að nýta sér lyftu til að komast á hestbak, en meirihluti nemenda notaði sérútbúna hnakka.
Sumir nemendur þurftu tvo til þrjá aðstoðarmenn sér til stuðnings á meðan aðrir voru mun sjálfstæðari. Það er alltaf fastur hópur nemenda sem sækja námskeiðin ár eftir ár, en á síðastliðnu ári var töluverð nýliðun og þá sérstaklega í hópi barna og ungmenna.
Meirihluti nemenda voru börn og unglingar, yngsti nemandinn var fimm ára og sá elsti á fimmtugsaldri. Þátttakendur komu frá 5 sveitafélögum, frá Mosfellsbæ, Reykjavík, Kópavogi, Hafnarfirði og Akranesi.
Við sjáum töluverðar framfarir hjá nemendum okkar og hafa sumir þeirra haft getu til þess að taka þátt í reiðnámskeiðum sem haldin eru á sumrin hjá hestamannafélögunum eða farið á hestbak með fjölskyldu sinni. Á námskeiðunum er lögð áhersla á að nemendur njóti þess að vera á hestbaki og eigi góða samverustund.
Boðið var upp á þrautabraut inni í reiðhöll og farið í útreiðatúr ef veður leyfði. Ekki hefur verið hægt að skipta nemendum í hópa eftir getu, en reynt var að bjóða upp á einstaklingsmiðaða reiðkennslu fyrir þá sem hafa áhuga og færni til þess.

 

SJÁLFBOÐALIÐASTARFIÐ.
Undanfarin ár hefur sjálfboðaliðastarfið gengið vel og hafa að jafnaði 15-20 sjálfboðaliðar tekið virkan þátt í starfinu á hverju ári og gefið af sér og sínum tíma. Sjálfboðaliðar eru á öllum aldri og koma úr ólíkum áttum.
Öllum sjálfboðaliðum gefst kostur á að fara í reiðtúr ef þeir vilja og hafa margir stígið þar sín fyrstu spor í hestamennsku. Haldin var sjálfboðaliðahittingur að vori og litlu jólin í desember. Að venju var vel mætt í jólahitting þar sem skipst var á gjöfum, skreyttar piparkökur og fleira skemmtilegt að ógleymdri pizzaveislunni sem hefur verið í boði Dominos undanfarin ár. Sjálfboðaliðar sáu sjálfir um að skipuleggja reiðtúra sl. vetur og héldu m.a. Bingó til styrktar starfinu. Allir sjálfboðaliðar voru leystir út með þakklætisvotti fyrir gott starf.

 

KYNNING
Kynning á starfinu hefur gengið vel og hefur verið gott samstarf við aðila sem sinna málefnum fatlaðra. Haldin var kynning á námskeiðunum og boðið upp á prufutíma í reiðhöll Harðar. Auk þess var nemendum á námskeiðum boðið að taka með sér gesti til að fylgjast með tímanum.

 

ÞAKKLÆTI.
Fræðslunefnd fatlaðra vill koma á framfæri sérstöku þakklæti til allra þeirra aðila sem styrktu starfið á einn eða annan hátt. Sérstakar þakkir fá Rótarýklúbbur Mosfellssveitar, SS Búvörur og Allianz sem hafa stutt vel við bakið á starfinu undanfarin ár. Hestamannafélagið lét yfirfara öryggisbúnað og lyftu sem er notuð til að aðstoða nemendur við að komast á og af baki. Sett var á fót styrkjanefnd sem starfaði frá janúar til mars. Ekki komu neinir styrkir í gegnum nefndina, en samtalið var gott og hugmyndir mótaðar að nýjum leiðum við að styðja við starfið. Nefndarmönnum er þakkað fyrir að gefa sér tíma og sýna málefninu áhuga. Á hverju ári þarf að endurnýja eitthvað af beislisbúnaði, hjálmum og ofl. Við fögnum því alltaf ef að það leynist búnaður hjá Harðarfélögum sem þeir hafa ekki lengur not fyrir en getur komið að góðum notum í starfinu okkar. Nú vantar t.d. þykkar og góðar undirdýnur undir hnakkana sem eru margir komnir til ára sinna. Þökkum öllum Harðarfélögum fyrir tillitsemi og hjálpsemi á meðan á námskeiðunum stóð, en síðast en ekki síst öllum okkar frábæru sjálfboðaliðum, aðstandendum og aðstoðarfólki nemenda. Án þeirra væri þetta ekki mögulegt.

Fræðslunefnd fatlaðra

aaaaaaa.jpg