Skýrsla kvennanefndar 2025

Skýrsla fyrir aðalfund Harðar 29.10.25
Guðný Guðlaugsdóttir ritar

Í kvennanefnd Harðar veturinn 2024-2025 sátu:

Alda Andrésdóttir
Guðný Guðlaugsdóttir
Guðrún Hildur Pétursdóttir
Harpa Groiss
Kristjana Þórarinsdóttir
Margrét Ólafía Ásgeirsdóttir
Sædís Jónasdóttir
Olga Rannveig Bragadóttir

Helstu verkefni og áherslur:

Að skapa félagslegan vettvang fyrir Harðarkonur til að hittast og fara í reiðtúra saman.

Dagskrá veturinn 2024-2025:

Miðvikudagur 19. mars: Kvennanefnd kynnir starf sitt á fundi í Harðarbóli. Kynning á Harmony hnökkum og reiðtygjum.
Miðvikud. 2. apríl: Stuttur byrjunar reiðtúr í hverfinu.
Miðvikud. 16. apríl: Riðum í Varmadal. Kíktum á nýju skemmuna og pöntuðum pizzur.
Miðvikud. 30. apríl: Riðum i Laxnes. Grilluðum hamborgara.
Föstud. 16. maí: Riðum til Olgu í Fitjakoti og fengum grillaðar pylsur, fengum kynningu á bestu hófolíu i heimi. Fórum svo í hesthúsarölt i hverfinu.
Laugard. 31. maí: Kvennareið. Þingvellir - borðað að Skógarhólum.

Mat:
Kvennanefnd byrjaði af krafti með því að kynna starf vetrarins á fundi í Harðarbóli ásamt því að vera með kynningu á hnökkum og reiðtygjum. Fundurinn var vel sóttur og reiðtúrar kvennanefndar hafa átt vaxandi fylgi að fagna og virðast vera að festa sig í sessi. Milli 10 - 30 konur tóku þátt í reiðtúrunum og ennþá fleiri mættu á félagslega viðburði sem sumir voru nýir eins og hesthúsaröltið. Kvennanefnd var sammála um að hesthúsaröltið hefði tekist mjög vel og skapað meiri nánd milli kvenna í félaginu. Kvennareiðin í maí var að þessu sinni um Þingvelli og þrátt fyrir að vera á degi þar sem annar viðburður var í gangi í félaginu þá var hún mjög vel sótt.
Kvennanefnd nýttir fésbókarsíðuna Harðar-konur aðallega til að auglýsa starfs sitt ásamt því að halda.

aaa1.jpg

aaakv.jpg

 

Skýrsla ferðanefndar

Skýrsla fyrir aðalfund Harðar 29.10.25
Guðný Guðlaugsdóttir ritar

Í ferðanefnd Harðar veturinn 2024-2025 sátu:

Guðný Guðlaugsdóttir
Ib Göttler
Ingibjörg Ásta Guðmundsdóttir

Helstu verkefni og áherslur:

Lögð var áhersla á að skipuleggja nokkra sameiginlega reiðtúra fyrir hinn almenna Harðarfélaga. Lagt var upp með að reiðtúrarnir væru misjafnir að þyngdarstigi og markmiðið var að skipuleggja eina sameiginlega sumarferð.

Dagskrá veturinn 2024-2025:

26. apríl: Fáksreið (Harðarfélagar riðu í Fák).
3. maí: Harðarfélagar riðu á móti Fáksfélögum (Hlégarðsreið)
24. maí: Náttúrureið - riðið inn í Helgadal.
26. - 29. júní: Kjósarreið.

Mat:
Fáksreiðin á sér langa hefð og er ljúft og skylt fyrir ferðanefnd að skipuleggja. Það var fámennur en góðmennur hópur sem reið í Fák að þessu sinni og óskandi væri að félagið gerði hér gangskör að því að hvetja fleiri til þátttöku.
Harðarfélagar tóku á móti félögum sínum úr Fáki viku seinna og mikill fjöldi úr Fák sem og öðrum félögum mættu í Harðarból og borðuðu þar súpu saman. Þessar móttökur voru félaginu til mikils sóma.
Það var einnig fámennur en góðmennur hópur sem tók þátt í náttúrureiðinni sem að þessu sinni var inn í Helgadal. Þar var kveikt bál og borðað nesti. Nokkuð margir og ólíkir viðburðir eru á vegum félagsins í maí og hér var náttúrureiðin í innbyrðis samkeppni við þá.
Ferðanefnd lauk starfi sínu með því að skipuleggja Kjósarreið, sem voru alls fjórir reiðtúrar á fjórum dögum, mislangir og erfiðir ásamt því að skipuleggja og sjá um tvær sameiginlegar máltíðir og beitarhólf fyrir hesta. Þessi ferð tókst mjög vel og yfir þrjátíu manns riðu saman alla daga með hátt í 50 hross. Í fyrsta legg var riðið úr hverfinu og að Skrauthólum á Kjalarnesi, annar leggur var frá Skrauthólum að Miðdal, þriðji leggur frá Miðdal að Hrosshóli í Kjós og í fjórða og síðasta legg var riðið frá Hrosshóli í heimahagana um Svínaskarð. Höfðinglega var tekið á móti Harðarfélögum á öllum stöðum sem þökkuðu fyrir sig með gjöfum, húfum og derhúfum merktu félaginu, sögu Harðar og ginflösku. Almenn ánægja var með þessa ferð og hlaut ferðanefnd talsvert lof og hrós fyrir.

aaafn.jpg

aaarn2.jpg

aaa3.jpg

 

 

 

 

 

Skýrsla Reiðveganefndar 2025

Hörður reiðveganefnd :
Ingibjörg Guðmundsdóttir, Rúnar Sigurpálsson og Sæmundur Eiríksson formaður 

Helstu verkefni og framkvæmdir á vegum Harðar og reiðveganefndar árið 2025 Í febrúar og mars urðu miklar skemmdir vegna vatnavaxta og flóða á reiðleiðum á félagssvæði Harðar sem voru að mestu kostaðar af Mosfellsbæ :

Mynd 1 : reiðleið í fjöru út að Blikastaðanesi, keyrt út efni í reiðleið og lagfærð grjótvörn, keyrt út efni í reiðleið og jafnað í brekku niður að Fuglahúsi.

Mynd 2 : lagfæring á reiðleið og ræsum á Tungabakkahring og reiðleið með Leirvogsá, lagfæring á reiðleið að og í undirgöngum á Tunguvegi og upp með Köldukvísl.

Mynd 3 : keyrt út efni og jafnað á reiðleið með Köldukvísl upp að Víðiodda, lokað með grjóti við eldra vað þar sem áin hefur flætt inn á reiðleið í vorflóðum.

Mynd 4 : keyrt út yfirlag á reiðleið frá Víðiodda og upp að vaði vestan við golfvölll, lagfært ræsi á reiðleið neðan við Kirkju. Lagfært ræsi neðan við golfvöll og keyrt út efni og jafnað á reiðleið neðan golfvallar og með Köldukvísl.

Mynd 5 : keyrt út yfirlag á reiðleið frá Hafravatnsvegi og upp að Úlfarsfelli, lagfært ræsi í gili bætt efni ofan á ræsið og hlaðið grjóti við báða enda.

Mynd 6 : Vegagerðin lagði nýjan reiðveg með Hafravatnsvegi að Óskotsvegi, þegar Vegagerðin hafði lokið við reiðleiðina var bætt við yfirlagi ofan á reiðleið.

Mynd 7 : lögð var reiðleið við hið Óskotsvegar um 400 m vegarkafli, siðan var lagt yfirlag á reiðleiðina frá Hafravatnsvegi og á akveg/reiðleið upp í brekkuna að Óskoti.

Mynd 8 : keyrt út yfirlag á nýja reiðleið með Hafravatnsvegi frá Nesjavallaleið að Seljadalsá.

Mynd 9 : verið er að vinna í reiðleiðinni frá Skógarhólum að Öxará leiðin er grjóthreinsuð keyrt er út efni og það jafnað og brotið.

 

Sæmundur Eiríksson október 2025

aaarvn.jpg

aaarvn2.jpg

aaarvn3.jpg

aaarvn4.jpg

aaarvn5.jpg

aaarvn6.jpg

aaarvn7.jpg

 

Framboð til stjórnar Hestamannafélagsins Harðar

Framboð til stjórnar Hestamannafélagsins Harðar

Hestamannafélagið Hörður vekur athygli á því að þeir félagsmenn sem hafa áhuga á að gefa kost á sér til setu í stjórn félagsins skulu senda tilkynningu þess efnis á netfangið This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. fyrir 22. október 2025.
Kosning til stjórnar fer fram á aðalfundi félagsins þann 29. október 2025.
Samkvæmt lögum félagsins er á hverjum aðalfundi kosið um formann og helming meðstjórnenda (4).

Virðingarfyllst,
Stjórn Hestamannafélagsins Harðar

Aðalfundur og dagskrá

Boðað er til aðalfundar hestamannafélagsins Harðar miðvikudaginn 29. október 2025 kl 20 í Harðarbóli.

Félagsmenn eru hvattir til þess að mæta.

Á dagskrá eru venjuleg aðalfundarstörf samkvæmt 5. gr félagsins.

Dagskrá aðalfundar skal vera:

Formaður setur fund og tilnefnir fundarstjóra og fundarritara

Formaður flytur skýrslu stjórnar

Gjaldkeri skýrir reikninga félagsins og kynnir 9 mánaða milliuppgjör

Umræður um skýrslu stjórnar og reikninga félagsins

Reikningar bornir undir atkvæði

Fjárhagsáætlun næsta árs og umræður

Árgjald ákveðið

Lagabreytingar

Kosningar samkvæmt 6. grein laga félagsins

Önnur mál

Fundarslit

6.grein

Stjórn félagsins skipa átta manns auk formanns. Stjórnin skiptir með sér verkum að undanskildum formanni, sem kosinn er beinni kosningu. Kosning stjórnar og formanns félagsins skal fara fram á aðalfundi félagsins samkvæmt eftirfarandi reglum:

Formaður skal kosinn til eins árs í senn og getur verið endurkjörinn alls þrisvar sinnum.

Átta meðstjórnendur skulu kosnir til tveggja ára þannig að fjórir stjórnarmenn gangi úr stjórn ár hvert. Þeir sem ganga úr stjórn með þessum hætti geta verið endurkjörnir.

Á aðalfundi skal kjósa tvo skoðunarmenn reikninga félagsins til eins árs í senn.

Þá skal og kjósa fulltrúa félagsins á ársþing og aðalfundi þeirra samtaka sem félagið á aðild að en formaður félagsins skal þó teljast vera sjálfkjörinn. Aðalfundur getur heimilað stjórn að tilnefna fulltrúa til setu á fundum þeim sem getið er hér að framan.

Einungis félagar eldri en átján ára eru kjörgengir í kosningum til stjórnar, formanns félagsins, til að vera skoðunarmenn ársreikninga og til að vera fulltrúar félagsins á ársþingum og aðalfundum þeirra samtaka sem félagið á aðild að.

Framboð til kosninga á aðalfundi skulu berast stjórn minnst 7 dögum fyrir aðalfund.

Pop-Up Vinna við hendi

Sunnudaginn næstkomandi 19. Október verður fyrsta Pop-Up námskeið haustsins!

Pop-Up námskeið eru eins dags námskeið það sem þema námskeiðsins er breytilegt eftir tímum!

Skráð er í hvern tíma fyrir sig og hver tími er auglýstur hverju sinni.

Að þessu sinni er það vinna við hendi en nemendum er velkomið að mæta með eigin hest en einnig er í boði að fá lánaðan hest í gegnum Hestasnilld en þá þarf að hafa samband við Sonju Noack á facebook 😊 Að þessu sinni er námskeiðið í boði fyrir krakka í yngri flokkum, 21 og yngri. Skipt verður í hópa eftir fjölda!

Frábært tækifæri til að koma sér af stað aftur eftir sumarið!

Skráningu lýkur laugardaginn 18.október klukkan 20:00

Verð fyrir tímann er 1500kr og skráning fer fram inn á https://www.abler.io/shop/hfhordur

Kennari: Thelma Rut Davíðsdóttir

popup.jpg

 

Uppskeruhátíð æskulýðsnefnd Harðar

Uppskeruhátíð æskulýðs Harðar verður haldin sunnudaginn 16. Nóvember kl.17:00 í Harðarbóli.

Það verða veitt verðlaun fyrir besta keppnisárangur ársins í barna-, unglinga- og ungmennaflokki.

ATH! Það þarf að senda keppnisárangur knapa á netfangið: This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.

Upplýsingar og reglur varðandi keppnisárangur má finna hér: 
Uppfærð viðmið til afreksverðlauna Harðar

Eftir viðurkenningarathöfnina ætlum við svo að eiga skemmtilegt kvöld saman, þar sem við spilum, borðum pizzu og fáum okkur eitthvað gott með.

Við hvetjum alla til að koma og og gleðjast með okkur. Einnig hvetjum við alla sem eru nýjir að kíkja við, sem og að bjóða vinum sem eru í hestunum í Herði að koma og kynnast okkur.

Þetta verður skemmtilegt kvöld!

Kveðja, æskulýðsnefndin.

564728003_10234304003835518_2401773686301433400_n.jpg

 

Aðalfundur

Boðað er til aðalfundar hestamannafélagsins Harðar miðvikudaginn 29. október nk. kl 20 í Harðarbóli.

 

Á dagskrá eru venjulega aðalfundarstörf samkvæmt 5. gr. laga félagsins.

 

Stjórnin

 

 

🐎 Pilates fyrir knapa – Helgarnámskeið!

Viltu bæta ásetuna þína og dýpka tengslin við hestinn þinn? Þetta einstaka námskeið sameinar fyrirlestra, sýnikennslu á hesti, Pilates-æfingar á dýnu og í stúdíói til að hjálpa þér að skilja líkama þinn og nota hann markvissar í hnakknum.

Þú munt læra að:

  • Viðhalda öruggri og jafnvægisríkri líkamsstöðu á hestbaki
  • Nota fíngerðar, næstum ósýnilegar ábendingar
  • Fylgja hreyfingum hestsins á feti, stígandi ásetu og tölti
  • Bæta taumsamband, hraðabreytingar og vinnu á hring

Hver þátttakandi fær lista með heimaæfingum.

Smærri hópar (8–10 á dýnu, 4–6 í stúdíói) tryggja persónulega leiðsögn og athygli.

Kennari – Heiðrún Halldórsdóttir

Heiðrún hefur verið knapi frá því hún man eftir sér og hóf að kenna Pilates árið 2008. Hún er einn af eigendum Eldrún Pilates Studio sem fagnar 10 ára afmæli í febrúar. Heiðrún starfaði við tamningar í um tíu ár og stundar hestamennsku enn í dag. Hún útskrifaðist sem Pilates for Dressage kennari árið 2012 og vinnur í nánu samstarfi við meistarakennara í Pilates til að útskrifa kennara í Romana's Pilates.

Með þessari einstöku reynslu úr bæði Pilates og hestamennsku leiðir hún nemendur áfram með áherslu á líkamsvitund, jafnvægi og hreyfingu í samspili við hestinn.

🗓️ Kennt helgina 8.- 9. Nóvember

📌 Í félagsheimilinu og reiðhöllinni hjá Herði mosfellsbæ ásamt Eldrún pilates studio í skipholti 50b

✨ Byggðu upp betri samskipti, ásetu og ánægjulegra samband við hestinn þinn!

Athugið! Aðeins 20 laus pláss á þetta námskeið svo um að gera að vera fljótur að skrá sig!

Aldurstakmarkið er 16 ára á árinu (fæd 2009)

Ath. Ekki þarf að vera með hest á þessu námskeiði

Verð: 27.500

Skráning er hafin inn á https://www.abler.io/shop/hfhordur

Skráningu lýkur þriðjudaginn 4.nóvember klukkan 20:00!

 

560313114_1399143645554352_6686237073634265799_n.jpg