Skýrsla stjórnar 2021

Skýrsla stjórnar 2021

 Skrifað 17.10.2021

 

Stjórn Hestamannafélagsins Harðar: 

Formaður:

Margrét Dögg Halldórsdóttir

Aðalstjórn:

Anna Lísa Guðmundsdóttir                                                    Kjörin   2019

Einar Guðbjörnsson                                                                Kjörinn 2019

Ingibjörg Ásta Guðmundsdóttir                                            Kjörin   2019

Rúnar Þór Guðbrandsson   (fyrir Hauk Níelsson)                Kjörinn 2019

Jón Geir Sigurbjörnsson                                                          Kjörinn 2021 (2020)

Aðalheiður Halldórsdóttir                                                       Kjörin 2021 (2020)

Magnús Ingi Másson                                                              Kjörinn 2021 (2020)

Ragnhildur B. Traustadóttir                                                   Kjörinn 2021 (2020)

Áheyrnarfulltrúi:

Ásta Björk Friðjónsdóttir

Skoðunarmenn:

Sveinfríður Ólafsdóttir

Þröstur Karlsson

Starfið

Hestamannafélagið Hörður telur í dag 623 félaga.  Yfirstandandi starfsár hefur fyrir margar sakir verið býsna sérstakt.  Fyrir það fyrsta hefur sitjandi stjórn aðeins starfað í 9 mánuði í stað 12 vegna þess að fresta þurfti síðasta aðalfundi margsinnis til að virða sóttvarnarreglur.  Þær sömu reglur hafa sett mark sitt á félagsstarfið almennt sem hefur verið með daprara móti, ekki mátti koma saman að neinu ráði allan síðasta vetur og áttum við fullt í fangi með að fylgja reglum sem breyttust títt og starfa eins og okkur var uppálagt, undir sóttvarnarreglum sem ÍSÍ gaf út í samræmi við almennar reglur stjórnvalda.

Allt gekk það þó áfallalaust og mesta furða hvað hægt var að starfa, námskeið og mót voru nærri óskert allt tímabilið, en aðrar samkomur var varla um að ræða.  Eins féllu niður félagsreiðtúrar vegna samkomutakmarkana og félagsstarf Heldri manna og kvenna var í algeru hléi.  Þannig að við höfum til margs að hlakka næsta vetur, að geta sinnt okkar félagsstarfi á eðlilegan hátt. Endurvakin kynbótanefnd gat til dæmis ekki tekið til starfa síðasta vetur, en nú horfir það til betri vegar. 

Það er líka svolítið sérstakt að taka við formennsku Harðar á slíkum tímum, fundir utan félags eru fæstir í raunheimi og erfiðara að kynna sig fyrir félagsmönnum sem maður má eiginlega ekki hitta.  En það hefur þó auðvitað ýmislegt verið unnið á þessu stytta starfsári og hugur í okkur stjórninni.

Stjórn hefur fundað mjög reglulega, jafnvel ört í vor og hefur verið hægt að halda alla fundi í raunheimi, örsjaldan þurfti að grípa til fjarfundarbúnaðar ef ekki allir gátu setið fundi. Tengiliður stjórnar situr í flestum nefndum félagsins, þær hafa fundað eftir þörfum og eru nokkuð sjálfstæðar í sínum verkefnum. 

Reglulega fundaði formaður og stjórnarmenn með starfsmönnum Mosfellsbæjar.

Formenn Hestamannafélaganna á Höfuðborgarsvæðinu hafa undanfarin ár hist reglulega til að ræða ýmis sameiginleg mál, aðeins var einn slíkur fundur haldinn síðasta vetur vegna samkomutakmarkana og annarra aðstæðna. 

Formönnum allra hestamannafélaga á landinu var boðið af LH í reiðtúr og kvöldverð á Skógarhólum og var það vel heppnað, sköpuðust skemmtilegar umræður í því fallega umhverfi sem þjóðgarðurinn býður uppá.  Vonandi verður þetta árlegur viðburður og enn betur sóttur.

Fasteignir

Rekstur reiðhallarinnar gekk vel og var nokkuð eðlileg útleiga á henni síðasta vetur, minni notkun Framhaldsskólans en áður þó.  Aðgangur félagsmanna með lyklum var í samræmi við fyrri ár, ívið meiri ef eitthvað og hófst fyrr að haustinu.  Ákveðið var að leggja í nokkrar endurbætur á gólfi hallarinnar og var því að ljúka nú um daginn.  Gólfið var tætt verulega upp og blandað sandi við efnið sem fyrir var.  Svo var sett furuflís yfir sem gerir gólfið mýkra og bjartara.  Sandurinn kemur svo vonandi í veg fyrir að gólfið verði eins hart og áður, undir flísinni.  Stjórn hefur verið í góðu sambandi við önnur félög til að leita ráða varðandi hvernig gólfinu er best sinnt.  Að auki er búið að festa kaup á tæki til að setja aftan í litla traktorinn okkar með snigli til að jafna gólfið dags daglega, það tæki mun jafnvel einnig nýtast á keppnisvöllinn og mögulega einhverja reiðvegi.  Rukkað var fyrir auglýsingaskilti í reiðhöllinni samkvæmt samningum, einhverjir hættu samstarfi og vinna er í gangi að fá nýja aðila inn með auglýsingar. Reiðhallarnefnd var endurvakin og hefur hún staðið fyrir tiltekt í höllinni auk þess að skipuleggja stærri verkefni, lagfæringarnar á gólfinu og þess háttar.  Sama nefnd hefur sinnt vallarsvæðinu og var ýmislegt hresst við þar í vor. Það er þó komið að verulegum framkvæmdum við völlinn og er verið að skipuleggja það verkefni.

Harðarból var ekki í útleigu síðasta vetur nema til karlakórsins Stefnis þegar þeir gátu farið að æfa aftur vegna takmarkana.  Mjög glæddist svo í sumar og haust í kjölfar tilslakana og er húsið mjög mikið bókað núna og fram á næsta ár.  Lokið var við að endurnýja salernin í Harðarbóli á meðan það var ekki í útleigu og ýmislegt annað var endurbætt innanhúss og utan, má segja að þetta hlé á útleigu hafi komið sér ágætlega til að sinna þessum verkum.  Mikil upplyfting hefur orðið undanfarið á félagsheimilinu okkar og er rétt ólokið við að innrétta skrifstofuna, það er lokahnykkur í þessari yfirhalningu.  Eiga þeir félagar okkar sem hafa staðið í þessari vinnu miklar þakkir skildar.

Umhverfi

Vinna við Ævintýragarðinn hélt áfram í ár og var töluvert mikið um framkvæmdir sem sumar snertu okkur hestamenn beint, einkum vinna við samgöngustíg.  Lokun reiðleiðar neðan við íþróttasvæðið að Varmá hefur dregist úr hófi, byrjað var mun seinna en áætlað var og enn er svæðið ekki komið í ásættanlegt horf.  Vinna við reiðleið innan garðsins er ekki hafin, en er á teikniborðinu.

Sett voru upp skilti við Harðarbraut og Varmárbakka og eins vegvísir að Harðarbóli.  Hraðahindrun á Harðarbrautina var sett upp seinnipartinn í sumar. Vonandi er hún góð áminning til allra að draga úr ökuhraða í öllu hverfinu. Það verður að segjast að margi aka allt of greitt um göturnar í hverfinu.  Fleiri götuskilti í efri hluta hverfisins eru á leiðinni og eins er verið að hefja vinnu við að skipuleggja skilti á reiðleiðum.

Kerrustæðin hafa komið vel út og eru um 80 stæði í útleigu.  Þau eru öll númeruð og færri og færri að ruglast á stæðum, en vöntun er í raun á kerrustæðum og erum við að vinna í að reyna að leysa það mál.

Umhverfisnefndin sá um að skipuleggja hreinsunardaginn og gekk hann vel. Hann var haldinn á sumardaginn fyrsta.  Félagsmenn voru virkir í að hreinsa til í hverfinu og ánægjulegt að sjá hvað margar hendur vinna létt verk.  Eftir hreinsunina var boðið í grill í reiðhöllinni þar sem gætt var ýtrustu sóttvarna.  Ánægjuleg samvera og þessi dagur er alltaf skemmtilegur hluti af félagsstarfinu.

Lóðaúthlutun samkvæmt nýju deiliskipulagi hefur tafist og fengust þær skýringar á, að breytingin og fjölgun lóða skarast á við tvö ólík lönd sem hefur skapað mikla og flókna vinnu sveitarfélagsins því klára þarf breytingar á þessum löndum bæði hjá Þjóðskrá og Sýslumanni. Í einhverjum tilfella eru eldri gögn af skornum skammti og skráningar ekki með þeim hætti sem gert er ráð fyrir í dag. Því hefur átt sér stað mikil vinna í nýrri skráningu þess lands sem er meðal annars undir vegum og bílastæðum á svæðinu.  Í skoðun eru nokkur verkleg atriði sem vinna þarf svo hægt sé að gera lóðirnar byggingarhæfar. Þá þarf meðal annars að færa eina stóra lögn sem liggur undir hinum þremur nýju húsum. Áætla þarf kostnað þess auk annarra innviða sem fellur inn í gjöld úthlutunar svo áætlanir standist. Við vonumst til að þessari vinnu ljúki á næstu vikum og við getum farið í að úthluta lóðunum sem allra fyrst.  Sú úthlutun er á hendi bæjarins líkt og gildir með aðrar lóðir og við höfum enn ekki upplýsingar um hvernig hún fer fram. 

Þrátt fyrir ítrekaða leit að hesthúsi til leigu og jafnvel kaups undir félagshesthús þá er enn ekki annað í boði en að leigja pláss í Blíðubakkahúsinu undir þessa starfssemi.  Þar eigum við frátekin pláss bæði fyrir börn og unglinga sem eru með eigin hest og þá sem vilja leigja hest næsta vetur.  Okkur hefur ekki tekist að ganga frá samningum við Mosfellsbæ um þátttöku í kostnaði, sem er meiri en við ætluðum með því að vera ekki í eigin húsi.  Málið er í vinnslu og vonandi getum við farið af stað með félagshesthús til reynslu eftir áramót.  Búið er að skipuleggja starf og kennslu í tengslum við verkefnið og gera kostnaðaráætlun.  Það er bagalegt hvað þetta hefur verið löng og erfið fæðing en þannig er staðan og við viljum vita hvað við erum að fara útí og að þeir sem njóta þjónustunnar viti að hverju þeir ganga.

Starfsmenn félagsins á árinu voru Rúnar Sigurpálsson framkvæmdastjóri í 50 % starfi sem sér m.a. um reiðhöllina, hringvöllinn og allar framkvæmdir á vegum félagsins og Sonja Noack einnig í 50 % starfi sem sér um samskipti við nefndir, skráningar á námskeið, sendir út reikninga og sinnir dags daglegum skrifstofustörfum o.fl. Auk þess starfar Sonja sem yfirreiðkennari félagsins. Guðrún Magnúsdóttir sér nú um útleigu á Harðarbóli og starfar við veislur þar og þrif að auki.

Reiðleiðir

Reiðvegastyrkur frá Mosfellsbæ var svipaður og árið áður og styrkur frá LH var ívið hærri.

Okkar aðal reiðleiðir voru lagfærðar eins og undanfarin ár og er Tungubakkahringurinn að verða býsna góður þó leiðin sé enn í vinnslu og verið að hækka veginn upp áður en farið verður að bera betra efni í efsta lagið.  Nú í haust verður lagfærð leiðin meðfram fótboltavellinum. 

Haldið var áfram að vinna í Ístakshringnum og er stefnan að sú leið verði að miklu leiti opin á veturna.

Reiðleiðirnar um Skammadal og víðar í Mosfellsdal voru yfirfarnar og ræsi lagfærð.

Í vor var undirritaður samgöngusáttmáli sem hestamenn eru aðilar að í gegnum Landssamband hestamannafélaga.  Sáttmálinn var gerður á milli ólíkra útivistarhópa sem í auknum mæli eru að rekast á í sinni útivist svo truflun verður á og jafnvel slys.  Í kjölfarið átti sér stað mjög þarft og gott samtal sem við höldum áfram og pössum að eiga góð samskipti við þá sem deila stígum og öðru með okkur. Jafnframt þurfum við að huga að okkar sérstöðu og gæta hennar og passa upp á okkar íþróttamannvirki sem eru einmitt að mestum hluta reiðvegir.  Það er stöðug ásókn í að nota reiðvegi undir annað og við verðum að taka jákvætt á þeim málum sem upp koma og vinna úr í sátt.  Við eins og aðrir þurfum að læra að njóta útivistar við breyttar aðstæður, þær eru breyttar til frambúðar og við verðum að einhverju leiti að aðlagast.  Því betra samtal sem við eigum því meiri líkur eru á að hlaupandi, gangandi og hjólandi fólk læri að umgangast okkur og hestana okkar og árekstrum fækki.

Ýmislegt

Beit var úthlutað venju samkvæmt og var 1 hólf tekið nýtt í notkun.  Skil voru il fyrirmyndar og öll hólf í góðu ástandi við lok beitar.  Sum hólfanna hefðu raunar þolað meiri beit og mun stjórn hafa bæði ofnot og vannýtingu til hliðsjónar við næstu úthlutun.

Framkvæmdaáætlun til næstu ára er uppfærð og send Mosfellsbæ. Gott er að vinna eftir slíkri áætlun og hafa yfirsýn yfir þau verkefni sem við viljum fara í og hver aðkoma bæjarins er að þeim.  Aukinn íbúafjöldi þýðir aukningu í hestamennskunni og nú þegar er töluverður skortur á hesthúsplássum í hverfinu.

Í vor voru settir inn á heimasíðu félagsins tveir hnappar, annar fyrir ábendingar um það sem má bæta í okkar umhverf og mannvirkjum.  Hinn er til að tilkynna um atvik sem verða á svæðinu, slys eða óhöpp.  Mjög mikilvæg er að slík mál berist rétta leið svo hægt sé að gera úrbætur ef þarf.  Báðir þessir hnappar eru rétt og stutt boðleið til stjórnar svo við fáum einhverja yfirsýn yfir það sem þarf að laga og almennir félagsmenn geti lagt sitt af mörkum til innra starfs félagsins.

Benedikt Ólafsson og Aðalheiður Anna Guðjónsdóttir voru kjörin íþróttamaður og íþróttakona Harðar 2020 eins og fram kom á síðasta aðalfundi í janúar og óskum við þeim innilega til hamingju með þann titil.  Viðurkenningar hafa verið veittar á árshátíð félagsins, en engin slík var haldin 2021 frekar en 2020.  Vonandi verður hægt að veita viðurkenningar á næstu árshátíð félagsins sem væntanlega verður á fyrstu mánuðum næsta árs.

Nefndir félagsins hafa að venju staðið sig afburða vel, þrátt fyrir mótlæti vegna Covid.  Eiga nefndarmenn þakkir skildar fyrir alla þá vinnu sem þeir hafa lagt á sig fyrir félagið.  Án sjálfboðaliðastarfsins væri félagið ekki til.  Nefndakvöld verður haldið í nóvember sem smá þakklætisvottur til þessa hóps. Vert er einnig að þakka Mosfellsbæ fyrir öflugan stuðning við félagið. 

Skýrslur frá nefndum félagsins eru birtar á heimasíðu félagsins, ásamt ársreikningi og skýrslu stjórnar. 

Hestamannafélagið varð 70 ára 26. febrúar 2020 og enn bíða veisluhöld þess vegna betri tíma.  Vonandi getum við gert eitthvað skemmtilegt af þessu tilefni í vetur.

Félagið stendur vel fjárhagslega þó aðstæður hafi verið erfiðar á köflum undanfarið ár.  Hestamannafélagið Hörður er fyrirmyndarfélag innan ÍSÍ.  Auk þess á félagið nú fulltrúa í varstjórn UMSK og er það áhugaverð tenging inn í íþróttahreyfinguna, mikill stuðningur sem við getum sótt þangað og reynsla sem nýtist.

Stjórn félagsins þakkar félagsmönnum fyrir árið og hlakkar til samstarfs og ríkari samveru í framtíðinni.

Fh stjórnar Harðar

Margrét Dögg Halldórsdóttir formaður

Ársskýrsla fræðslunefndar Harðar 2021

Formáli

Sonja Noack sér alfarið um skipulagningu á reglulegum námskeið. Hún sér um að skipuleggja helgarnámskeið og viðburði og stjórnin sér um framkvæmd helgarnámskeiða og viðburða.

Kynningar námskeiða og viðburða fór fram í gegnum heimasíðu félagsins og í gegnum FB síðu Harðar.

 

Helgarnámskeið - Aðalheiður Anna Guðjónsdóttir

Námskeiðið var haldið 20.-21.mars 2021 og var fullbókað. Nemendur voru mjög ánægðir með einstaklingsmiðaða kennslu hennar Aðalheiði.

 

Námskeið með Anton Páli Níelssyni

Anton hélt námskeið hjá okkur á tveimur föstudögum og var því strax fullbókað. Kennslan vakti mikla lukku meðal nemenda.

 

Vikuleg námskeið í Herði – Veturinn 2021

 

Það var fjölbreytt úrval af námskeiðum í vetur.

Hnakkafastur – Ásetunámskeiðið hennar Fredricu Fagerlund var boðið bæði fyrst fyrir byrjendur og svo fyrir lengra komna.

Fredrica kenndi líka hið árlega námskeið í grunnþjálfun ungir hestar, sem hefur verið mjög vinsælt.

Almennt reiðnámskeið og töltnámskeið kenndi Ragnheiður Þorvaldsdóttir og var það vel sótt og sýndi sig að margir sækja í almenna kennslu.
Ragnheiður bauð líka upp á einka- og paratíma sem voru á mánudögum og nemendur mjög ánægðir!

Oddrún Ýr kenndi námskeiðið “aftur á bak” til að hjálpa fólki sem hefur lent í erfiðleikum með kjark á hestbaki eða eftir lengri pásu. Oddrún Ýr var einnig með námskeiðin knapamerki 1 og hóp í knapamerki 3 sem var að ljúka námi síðan 2020 (gat ekki klárað þá vegna Covid).


Ragnheiður Þorvalds og Sonja Noack voru báðar með sitt hvorn hóp í knapamerki 3 (Æskulýðs og fræðslunefndarhópar). Það hefur verið að aukast aftur aðsókn í knapamerkja námskeið, sem er frábært þar sem um hnitmiðað og vel uppbyggð nám er að ræða.

Arnar Bjarki var með keppnisnámskeið fyrir krakka.  Einnig tók hann að sér fyrri hluta vetrarins að kenna einkatíma fyrir og eftir tíma krakkanna og var því kennsla hjá honum alveg fram til kl 23 þau kvöld. Mikill ánægja hjá nemendum.

Robbi Pet tók að sér að kenna paratíma og voru þeir vel sóttir og voru nemendur líka hæstánægðir.

 

Aðrir viðburðir

Því miður náðist ekki að halda fleiri viðburði þetta árið vegna samkomu takmarkanna vegna Covid 19. 

Framundan

Það verður sýnikennsla með Sigvaldi Lárus núna í nóvember sem verður mjög spennandi.  Verið er að skipuleggja fræðslustarf vetrarins og verður það auglýst þegar nær dregur.

Ársskýrsla Fræðslunefndar fatlaðra 2021

ffh.JPG

NÁMSKEIÐIN
Vornámskeiðin voru enn lituð af áhrifum Kórónuveirunnar,Covid-19.
Töluvert var um sóttkví bæði hjá nemendum og sjálfboðaliðum. Nokkrir nemendur afskráðu sig vegna smitáhættu á miðju námskeiðstímabil. Þetta olli því að suma daga voru afar fáir nemendur og lítið var unnt að hagræða með því að færa nemendur til á milli daga, þar sem námskeiðin voru hafin, en nemendur okkar eru með mjög skipulagða dagskrá alla vikuna í öðrum tómstundum. Þetta reyndist starfinu mjög kostnaðarsamt, þar sem fasti kostnaðurinn hélst óbreyttur ásamt kostnaði við sóttvarnir.
Mikil eftirspurn var eftir helgarnámskeiði, en því miður höfum við enn bara tök á að halda eitt slíkt á laugardagsmorgnum, en það var tæplega þreföld umframeftirspurn eftir helgarnámskeiðum bæði á vorönn og haustönn.
Haustnámskeiðin fara vel af stað. Haustnámskeiðin 2021 fóru mjög vel af stað og er fullbókað á öll námskeiðin og komust færri að en vildu. Undanfarin ár hefur sjálfboðaliðastarfið gengið mjög vel og árið í ár er engin undantekning. Sjálfboðaliðar eru á öllum aldri, margir sem hafa verið í hestamennsku eða langar til að byrja og eignast hest. Það á sérstaklega við um krakka á aldrinum 13-18 ára, en þeim gefst kostur á að komast í reiðtúr á hestunum okkar, en við höfum reynt að hafa reiðtúrana okkar í hverri viku og stundum tvisvar til þess að allir fái tækifæri á að komast í reiðtúrana. Elma Benediktsdóttir sá að mestu leyti um reiðtúrana síðastliðið ár, en hún situr einnig í Fræðslunefnd fatlaðra.
Nýskráningar nemenda eru flestar hjá börnum og unglingum og yngsti nemandinn okkar er 4 ára en sá elsti yfir fertugt. Þátttakendur komu frá 6 sveitafélögum, aðallega frá Mosfellsbæ, Reykjavík og Hafnarfirði.
Við sjáum töluverðar framfarir hjá nemendum okkar og hafa sum þeirra haft getu til þess að taka þátt í reiðnámskeiðum sem haldin eru á sumrin hjá hestamannafélögunum. Einnig hafa þessi námskeið stuðlað að því að foreldrar sem stunda hestamennsku hafa í kjölfarið treyst sér til að fara í reiðtúra með barnið sitt.
Það er alltaf jafn ánægjulegt að segja frá því hversu frábærar móttökur og lof þetta starf fær, bæði frá þeim sem eru á námskeiðunum, en ekki síður frá aðstandendum og þeim sem fylgjast með starfinu. Flestir þátttakendur koma aftur og aftur og sumir taka þátt allan veturinn.
Foreldrar og umönnunaraðilar bera starfi okkar vel söguna og kynna reiðnámskeiðin sín á milli, það hefur haft í för með sér fjölgun á nýjum nemendum og færri komast að en vilja.

 

SJÁLFBOÐALIÐASTARF – öflugt og í öllum aldurshópum.

Án sjálfboðaliða væri ekkert starf fyrir fatlaða. Við erum í góðu samstarfi við grunnskólana í Mosfellsbæ, sem hafa kynnt sjálfboðaliðastarfið með okkur og boðið nemendum sínum að fá sjálfboðaliðastarfið metið sem valgrein. Þetta samstarf hefur verið okkur ómetanlegt og þátttaka ungra sjálfboðaliða er afar góð. Sjálfboðaliðahópurinn var mjög sterkur og öflugur og ánægjulegt að sjá einnig fjölgun í hópi fullorðna sjálfboðaliða, en við leggjum áherslu á, að á hverju námskeiði séu 4 fullorðnir ásamt yngri sjálfboðaliðum.
Í vetur var því miður ekki hægt að vera með sjálfboðaliðakvöldin, hvorki í upphafi námskeiða né í lok þeirra sökum Covid. Til stendur að halda sjálfboðaliðakvöld í nóvember og að venju verða sjálfboðaliðar leystir út með gjöfum í lok hverrar annar.
Sjálfboðaliðastarfið fer vel af stað í haust og höfum við aldrei haft jafnmarga sjálfboðaliða og nú.

 

TÆKIFÆRI TIL VAXTAR OG MARKAÐSETNINGU Á ÍSLENSKA HESTINUM

Agla Hendriksdóttir, formaður fræðslunefndar fatlaðra sendi inn hugmynd að verkefni fyrir nemendur í MPM námi við Háskólann í Reykjavík, skýrslunni var skilað í vor og mun vonandi nýtast vel. Markmiðið var að tryggja enn betur rekstrargrundvöll starfsins og vöxt þess, en mikilvægt er að fleiri sveitafélög en Mosfellsbær komi að verkefninu og önnur hestamannafélög veiti aðstöðu, svo hægt sé að efla starfsemina og koma henni sem víðast. Agla setti sig einnig í samband við þá sem sinna sambærilegu starfi erlendis í von um samstarf. Slíkt samstarf getur nýst víða í hestasamfélaginu en þetta er einstakt tækifæri til að markaðssetja fjölhæfni íslenska hestsins og hið einstaka geðslag hans.
Við viljum nota tækifærið og hvetja þá sem hafa áhuga og búa yfir hestakosti sem nýtist í þetta starf að setja sig í samband við okkur. Þörfin er til staðar.

 

ÞAKKLÆTI TIL STYRKTARAÐILA OG VELUNNARA.

Fræðslunefnd Harðar vill koma á framfæri sérstöku þakklæti til allra þeirra aðila sem styrktu starfið á einn eða annan hátt. Einnig er það mjög þakkarvert að eiga góða að í hestasamfélaginu sjálfu.
Helgi í Blíðubakkahúsinu fær enn og aftur sérstakar þakkir fyrir að koma sjálfboðaliðastarfinu á framfæri við hestafólk í Blíðubakkahúsinu.
Heysalarnir okkar fá að sjálfsögðu þakkir fyrir að gefa af og til hey fyrir hestana, en Gulli Harðarfélagi hefur reynst okkur afar vel undanfarin ár, en Jón heysali á einnig þakkir skildar.
Því miður tókst ekki að afla styrkja vegna undirburðar umfram afsláttarkjara, en vonir standa til að úr rætist á komadi ári. Peningurinn sem kom við dósa og flöskusöfnun hefur að jafnaði verið nýttur til sjálfboðaliða en vegna Covid var lítið um söfnun á síðasta ári, en það sem safnaðist var nýtt upp upp í sóttvarnarkostnað, sbr. hanska, grímur og sótthreinsi fyrir búnaðinn.
Veiðivöruverslunin, Flugubúllan í Hlíðasmára styrkti starfið með grímum, en sá hluti hefði orðið verulega kostnaðarsamur fyrir okkur.
Á komandi ári þarf að endurnýja hjálma,beisli og tauma sem eru orðnir mjög slitnir, einnig þarf að fjölga stuðningsbeltum, þar sem nemendum hefur fjölgað. Leitað verður eftir stuðningi styrktaraðila, en einnig væri ánægjulegt ef að í hesthúsum Harðarfélaga leynist búnaður sem getur komið að góðum notum í starfinu okkar.
Í haust var ákveðið að fjölga í leiðbeinandahópnum í takt við fjölgun nemenda, en fram að þessu hefur einungis formaður getað leitt reiðnámskeiðin í fjarveru Fredricu Fagerlund reiðkennara og verið henni til stuðnings við að koma afar fötluðum einstaklingum á bak.
Lagðar voru inn styrkumsóknir fyrir komandi vetri m.a. til Rótarý í Mosfellsbæ og fengum við jákvæðar undirtektir, auk þess höfum við fengið nýja styrktaraðila sem ekki vilja láta nafns síns getið að svo stöddu. Við leggjum áherslu á að starfið sé rekið á þann hátt að útgjöld og skráningargjöld séu í lágmarki og nægir fjármunir séu til fyrir hverja námskeiðsönn svo hægt sé að halda starfseminni áfram. Það er ekki markmið með þessari starfsemi að hún skili hagnaði.
Við þökkum öllum þeim sem hafa lagt málefninu lið kærlega fyrir og hlökkum til áframhaldandi samstarfs.

 

f.h. Fræðslunefndar fatlaðra.

Agla Elísabet Hendriksdóttir, formaður.

Ársskýrsla Reiðveganefndar 2021

Reiðveganefnd Harðar :
Einar Guðbjörnsson
Guðmundur Jónsson
Ingólfur Á Sigþórsson
Jóhannes Oddsson
Ragnheiður Þórólfsdóttir
Sæmundur Eiríksson formaður

Reiðveganefnd hafði til ráðstöfunar árið 2021 eftirfarandi framlög : Frá Landssambandi Hestamannafélaga til framkvæmda við reiðvegi í Mosfellsbæ og nágrenni kr. 3.350.000,- og sérstök úthlutun í Skógarhólaleið kr. 10.000.000,- Hörður fékk úthlutað frá Mosfellsbæ til viðhalds og nýframkvæmda reiðvega kr. 3.000.000,- og til viðbótar kr. 1.700.000,- sem Áhaldahúsið hafði til viðhalds á reiðleiðum í samráði við Hestamannafélagið Hörð. Samtals til reiðvegaframkvæmda hjá Hestamannafélaginu Herði kr. 18.050.000,-

Helstu verkefni og framkvæmdir á vegum Harðar og reiðveganefndar árið 2021 :

Keyrt var út efni og jafnað á reiðgötur um Tungubakkahringinn og vestur með Leirvogsá norðan við Flugskýlin. Stefnt er að því að bæta efni í reiðleið sunnanmegin þannig að reiðleiðin standi upp úr á stórstraumsflóði. - mynd 1mynd1.JPG

 

Reiðleið R11.09 Brúarlandsleið frá Tunguvegi að Brúarlandi hefur verið lokuð frá því í júní og er enn lokuð vegna framkvæmda. Sett hefur verið ný göngubrú yfir Köldukvísl neðan Leirvogstunguhverfis og verður gamla brúin notuð fyrir hestaumferð. Ekki er lokið frágangi á stígunum að göngubrú og reiðbrú. – mynd 2mynd2.JPG

 

Reiðleið R10.04 með Köldukvísl var hefluð frá brú á Vesturlandsvegi og upp að Víðiodda. Gert var við ræsi í brekkunni vestan Hringvegar neðan við Kiwanishúsið. Reiðleið R106.22 yfir Leirvogstungumela var öll lagfærð með ýtu og búið er að keyra út og jafna efni yfir norðurhluta leiðarinnar. Eftir er að hefla norðurhlutann og stefnt er að því að keyra efni yfir suðurhluta leiðarinnar og laga skarðið syðst á reiðleiðinni. – mynd 3mynd3.JPG

 

Á reiðleið R106.29 neðan við Bakkakotsvöll var gert við tvö ræsi. – mynd 4mynd4.JPG

 

Á reiðleið R20.02 Kollafjarðarleið um Esjumela var farið með ýtu og leiðin jöfnuð og lagfærð. Stefnt er að því að keyra yfirborðsefni í reiðleiðina. – mynd 5mynd5.JPG

 

Hluti reiðleiðar R11.09 Brúarlandsleið frá Völuteigi og að Stekkjaflöt var grjóthreinsuð og yfirborðsefni keyrt út, jafnað og heflað. Ný reiðgöng á Reykjavegi við Ísfugl voru opnuð í mars á þessu ári. – mynd 6mynd6.JPG

 

Á reiðleið R11.04 Uxamýri var gert við tvö ræsi, og keyrt efni í stærstu holur. Á síðasta ári var lagt bundið slitlag á hluta Hafravatnsvegar (brotin lína á mynd). Ekki hefur fengist leyfi landeiganda til þess að leggja reiðveg við hlið akvegar. Hafravatnsvegur er flokkaður sem „skilavegur“ hjá Vegagerðinni, það er honum verður skilað til Mosfellsbæjar á næsta ári og þá með bundnu slitlagi út undir Dalland. Samkvæmt aðalskipulagi er Hafravatnsvegur einnig skilgreindur sem reiðleið. Leitað hefur verið eftir því við Veggerðina að hugað verði að reiðleið með Hafravatnsvegi en það hefur litlu skilað til þessa. – mynd 7mynd7.JPG

 

Á reiðleið R11.05 Skammadalsleið vestur var gert við ræsi þar sem reiðleiðin liggur yfir Skammdalslækinn og fyllt í stærstu holur. Með Skammdalslæk er reiðleið á skipulagi (græn lína). Reiðleiðin liggur frá Völuteig um Álafossveg og með Skammadalslæk upp í suðurenda Skammadals. Vonandi verið farið í það að leggja þessa reiðleið sem fyrst þannig að greið leið verði um Skammadal milli reiðleiðar við Völuteig og yfir í Mosfellsdal þar sem ekki er sýnt að leysist úr þeim hnút sem reiðleiðir eru í við Reykjahvol. - mynd 8mynd8.JPG

 

Framkvæmdum við vatnstankinn í Úlfarsfelli var lokið nú í haust en reiðleiðin hefur verið notuð sem aðkomuleið verktaka. Í verklok var sett yfirborðsefni yfir reiðleiðina frá áningunni neðan við vatnstankinn og út að Skarhólabraut. Eftir að að setja upp lokun fyrir bílaumferð við Skarhólabraut. – mynd 9mynd9.JPG

 

Áfram var unnið við lagfæringar á reiðleið R410.03 um Esjuhlíðar og sett niður nokkur ræsi og gert við girðingar. – mynd 10mynd10.JPG

 

Sérstök úthlutun var sett í Skógarhólaleið kr. 10.000.000,- og stendur sú vinna yfir núna. Lagfæringar verða gerðar á reiðleið milli Brúsastaða og Selkots, á kafla austan og sunnan við Stíflisdalsvatn og á kafla í Fellsendaflóa – mynd 11mynd11.JPG

Ársskýrsla 2020 - Félag hesthúsaeigenda á Varmárbökkum Mosfellsbæ

Ársskýrsla Félags hesthúsaeigenda á Varmárbökkum í Mosfellsbæ 2020

Í stjórn Félags hesthúsaeigenda á Varmárbökkum á Varmárbökkum 2020 sátu:

Júlíus Ármann formaður

Þóra A. Sigmundsdóttir gjaldkeri

Björk Magnúsdóttir ritari

Herdís Hjaltadóttir meðstjórnandi

Kjörinn endurskoðandi: Erna Arnardóttir

Tilgangur félagsins er að gæta sameiginlegra hagsmuna félagsmanna hvað varðar hesthús á svæðinu og stuðla að ýmsum félagslegum umbótum. Í samningi Mosfellsbæjar og Félags hesthúsaeigenda á Varmárbökkum frá 5. nóvember 2001 kemur fram að félagið hafi áfram til ársins 2023 réttindi sem lóðarhafi að sameiginlegu svæði hesthúsaeigenda á Varmárbökkum til sameiginlegra þarfa þeirra. Samkvæmt 11. gr. samningsins framlengist hann um fimm ár í senn, sé  honum ekki sagt upp með eins árs fyrirvara. Forsenda fyrir úthlutun svæðisins til félagsins er að félagið standi opið öllum hesthúsaeigendum á svæðinu og þeir geti nýtt alla aðstöðu á svæðinu eins og um sameign þeirra sé að ræða á grundvelli hliðstæðra reglna og kveðið er á um í lögum um fjöleignarhús, enda skulu þeir vera félagar í Félagi hesthúsaeigenda. Félagið skuldbindur sig til þess að hafa eftirlit með því að hesthúseigendur fullnægi skilmálum um umgengni og þrifnað í hesthúsahverfinu samkvæmt skipulags- og byggingarskilmálum fyrir hverfið, lóðaleigusamninga og samþykkt nr. 238/997. Verði félagsmenn ekki við tilmælum félagsins um umgengni, skal félagið leita til bæjarins, sem þá skal beita tiltækum úrræðum til bóta. Gegn þessum skilmálum greiðir félagið ekki lóðarleigu til Mosfellsbæjar.

Á starfsárinu 2020 voru haldnir þrír stjórnarfundir. Vegna fordæmalausra aðstæðna í samfélaginu vegna veirunnar Covid-19 voru ekki haldnir hefðbundnir stjórnarfundir og framan af fóru samskipti fram í gegnum tölvupóst og síma varðandi fyrirliggjandi verkefni. Vegna aðstæðna dróst að halda aðalfund félagsins vegna fjöldatakmarkana en þegar færi gafst var gætt að fjarlægðarmörkum og smitvörnum.

Sjúkragerðið er á vegum félagsins og hafa Júlíus og Herdís séð um það og liðsinnt þeim sem á því hafa þurft að halda fyrir veik og slösuð hross.

Hringgerðin eru í eigu og umsjón félagsins. Kvörtun barst um vatnsaga í gerðunum vegna þess að mölin sópast til hliðanna og lokar fyrir afrennsli. Verktaki var fenginn til að draga mölina aftur inn á miðju og gera vatnsrákir til að vatnið renni frá. Þá setti Magnús Ingi lamir á hliðin í gerðunum.

Líkt og undangengin ár sá félagið til þess að trjágróður á svæðinu væri snyrtur.

Félaginu bárust kvartanir vegna gáma og vörubílspalla sem notaðir eru sem taðþrær í hesthúsahverfinu og í framhaldinu sendi félagið fyrirspurn á þá sem við átti varðandi frekari fyrirætlanir.

Nokkrar umræður urðu um hvaða verklag félagið eigi að viðhafa við að sjá til þess að félagsmenn gangi vel um hesthús sín og nærumhverfi. Til hliðsjónar eru; samningur félagsins við Mosfellsbæ um hesthúsahverfið á Varmárbökkum, samþykkt um umgengni og þrifnað í hverfinu nr. 283/1997 samþykktar af Umhverfisráðuneytinu og lóðarleigusamningar.

Júlíus Ármann

rekstrarreikningur.JPG

efnahags.JPG

 

Árskýrsla mótanefndar 2021

mn.JPG

Nefndi var óvenjulega stór og vel skipuð ár:

-        Ragnheiður Þorvaldsdóttir (formaður)

-        Kristinn Sveinsson

-        Sigurður H. Örnólfsson

-        Rakel Katrín Sigurhanssdóttir

-        Ásta Friðjónsdóttir

-        Jón Geir Sigurbjörnsson

-        Súsanna Katarínaa Sand Guðmundóttir

Eftirfarandi mót voru haldin í vetur

3 vetrar mót:

Grímutölt Fiskbúðarinnar Mosfellsbæjra, Lækjabakkamótið og Fákafarsmótið. Grímutöltsmótið var haldið inn í höllinni hjá okkur og mættu rúmlega 30 keppendur til leiks. Seinni tvö vetar mótinn okkar voru svo haldin út á vellinum hjá okkur, meðal annars vegna Covid reglna um mótahald. Í hvoru móti fyrir sig voru rúmlega 50 skráningar

Opna Gæðingarmótið

Opna Gæðingarmót Harðar var haldið helgina 8-9 maí. Mótið var með hefðbundnum hætti. Þátttakendur voru tæplega 100 og var góð stemming meðal þátttakenda, dómara, sjálfboðaliða og annar sem komu að mótinu.

Opna Mosfellsbæjarmeistarmótið

Opna Mosfellsbæjarmeistarmótið var haldið 4-6 júni. Keppt var í als 32 flokkum og 270 skráningar. Mótið tókst í alls staði vel, mikil ánægja var bæði meðal þátttakanda, dómar og sjálfboðaliða. Þar sem við víxluðum íþróttamóti og gæðingamóti, færðist unghestakeppni yfir á þetta mót.

Tölumót Harðar

Vegna úrtöku fyrir Íslandsmót var sett upp tölumót 24.júni þar boðið var upp á allar greinar í meistara flokki (T1, T2, V1, F1 PP1). Þetta mót reyndist vel og mættu als 70 þátttakendur til leiks.

Auk þess var fjárfest í nýjum spjaldtölvum fyrir dómara, reyndust mjög vel og auðvelduðu okkur til muna mótahaldið..

Mótanefndi þakkar öllum sem tók þátt, keppendur, dómurum og sjálfboðaliðum fyrir frábæra samveru og sjáumst hress á næsta ári.

Fyrir hönd mótanefndar

Ragnheiður Þorvaldsdóttir

Ársskýrsla Æskulýðsnefndar Harðar 2020-2021

Formáli

Formaður Æskulýðsnefndar 2020-2021 var Bryndís Ásmundsdóttir en með henni í nefnd voru þær Aðalheiður G. Halldórsdóttir, Hrafnhildur Jóhannesdóttir, Halldóra Sif Guðlaugsdóttir, Kristín Tryggvadóttir og Randy Baldvina Friðjónsdóttir. 

Nefndin starfar í samstarfi við Sonju Noack sem sér um námskeiðahald og annað utan umhald fyrir félagið.

Kynningar viðburða fór fram í gegnum heimaísðu félagsins og í gegnum FB síðu Æskulýðsnefndar.

Æskan og hesturinn/ sýning í Herði

Undirbúningur var í gangi og var von okkar um að við gætum haldi viðburðinn Æskan og hesturinn. En því miður frestaðist hann vegna Covid 19. Fredrica Fagerlund hélt utan um þennan undirbúning sem að var fimleikar á hestum. Í staðinn fyrir æskan og hesturinn var haldin sýning fór fram þann 17. Maí. Krakkarnir buðu fjölskyldu og vinum á sýninguna sem tókst vel.

Þökkum Fredricu Fagurlund fyrir hennar þátt í undirbúningi.æskan.JPG

 

Pákafitness

Við héldum upp á páskafitness í mars þar sem að fjörutíu og átta krakkar tóku þátt. Við vorum með fullt af frumlegum og skemmtilegum leikjum. Svo í lokinn fengu allir vegleg verðlaun sem að var páskaegg.

 páskaf.JPG

 

 Fjölskylduferð á Hraðastaði

Við ákvöðum að halda fjölskylduferð á Hraðastaði. það voru nokkrir hugrakkir sem riðu upp eftir í grenjandi rigningu. Við grilluðum pylsur, fengum safa og prinspóló. Þetta var skemmtileg ferð.hraða.JPG

 Uppskeruhátíð 2021

Uppskeruhátíð verður haldin 18. Okt 2021 við í nefnd höfum skipulagt skemmtilegt kvöld fyrir krakkanna. Veðum m.a. með góðan mat, skemmtiatriði þar sem Einar Aron töframaður sýnir okkur töfra og svo verðlaunaafhendingu fyrir stigahæðstu knapa félagsins

Í barnaflokk voru það

  • Sigríður Fjóla Aradóttir

unglingaflokk voru það

  • Oddur Arason
  • Eydís Ósk Sævarsdóttir

Í ungmennaflokk voru það

  • Benedikt Ólafsson
  • Viktoría Von Ragnarsdóttir

Einnig varð Benedikt Ólafsson Reykjavíkurmeistari og Íslandsmeistari í Gæðingaskeiði á Leiru Björk frá Naustum

 

Aðrir viðburðir

Því miður náðist ekki að halda fleirri viðburði þetta árið vegna samkomu takmarkanna vegna Covid 19 og því miður var ekki haldinn uppskeruhátíð né þrif á reiðtygjum og fjölskyldu ratleikur sem að hafði verið skipulagður. 

Lokaorð

Árið 2020-21 var því miður litað af samkomu takmörkunum. En við vonum að árið 2022 verði betra. Vonum að þeir sem starfi í nefnd haldi áfram að láta starfið blómstra eins og hefur verið undanfarin ár þrátt fyrir miklar takmarkanir.

Fyrir hönd æskulýðsnefndar skilar hér formaður æskulýðsnefndar Bryndís Ásmundsdóttir árskýrslu nefndar.

Aðalfundur í dag miðvikudag kl 20 -áminning

Boðað er til aðalfundar hestamannafélagsins Harðar miðvikudaginn 27. október nk. kl 20 í Harðarbóli. 

Félagsmenn eru hvattir til þess að mæta.  

Á dagskrá eru venjuleg aðalfundatstörf samkvæmt 5. gr félagsins.

Dagskrá aðalfundar skal vera: Formaður setur fund og tilnefnir fundarstjóra og fundarritara

Formaður flytur skýrslu stjórnar

Gjaldkeri skýrir reikninga félagsins og kynnir 9 mán. Milliuppgjör

Umræður um skýrslu stjórnar og reikninga félagsins

Reikningar bornir undir atkvæði

Fjárhagsáætlun næsta árs og umræður

Árgjald ákveðið

Lagabreytingar

Kosningar samkvæmt 6. grein þessara laga

Önnur mál

Fundarslit

Aðeins skuldlausir félagar hafa atkvæðisrétt á fundinum skv. 3.gr laga félagsins. Stjórnin