Hestasjúkdómurinn

Hér  fyrir neðan er tilkynning frá Gunnari  Héraðsdýralækni Gullbringu- og Kjósarumdæmis til okkar, en eins og þar kemur fram hallast þeir að því að um salmonellu sýkingu sé að ræða.  Hesthúsin sem sýktu hestarnir eru í hafa verið sett í einangrun en ekki þótti ástæða til að loka hesthúsahverfinu.  Ég hvet hinsvegar alla til að vera á varðbergi áfram þar til endanleg niðurstaða fæst í málið.  En hér er tilkynningin:


„Í Norðurgröf við Esjurætur, eru haldin hross á útifóðrun, um það bil 40 stykki. Í gærdag 21. desember fannst dautt hross í hjörðinni og við nánari athugun reyndust mörg hross vera veik. Voru þau sum hver með háan hita og mörg með niðurgang, og var skíturinn frá þeim illa lyktandi. Tekin voru blóðsýni úr úr þremur hrossum og kom í ljós fækkun hvítrablóðkorna ( Leucopenía ) sem gæti bent til veirusmits. Í gærkvöldi og morgun voru hross flutt niður í hesthúsahverfið í Mosfellsbæ. Ástæða þessa var að hrossin voru sum hver mikið veik og sum kvalin. Talað hefur verið við formann hestamannafélagsins Harðar Guðjón Magnússon og hann beðinn um að sjá til þess að ekki sé komið með hross inn í hverfið að svo stöddu, en margir munu ætla að taka inn um hátíðarnar. Í morgun var þetta dauða hross krufið, um var að ræða fullorðinn feitan klár, helstu niðurstöður eru miklar bólgubreytingar í meltingarkerfi, en ekki að sjá neinar breytingar sem benda til veirusmits. Grunur leikur á smiti með salmonellu eða kokkum eða listeríu. Tekin hafa verið sýni til vefjaskoðunar, til bakteríu rannsóknar og til veirurannsóknar. Niðurstöður ættu að liggja fyrir eftir nokkra daga. Þangað til eru eigendur hesthúsanna þar sem hestarnir eru beðnir um að fylgja ströngum reglum um sóttvarnir, hleypa engum inní hesthúsin, nota sérklæðnað og skótau í húsunum, þvo sér vel og reglulega um hendur. Skít frá hestunum þarf að urða ef að um sýkingu með salmonellu reynist vera.
Gunnar Örn