Samningi slitið við GT bygg og stál.

Kæru félagsmenn,

Reiðhallarnefndin, í samráði við Aðalstjórn, hefur fundið sig knúna til að gera samkomulag við GT bygg og stál um slit á verksamningi.  Nefndin hefur staðið í ströngu í erfiðri aðstöðu, bæði hvað varðar tafirnar sem orðið hafa á verkinu, en ekki síður því sí versnandi umhverfi sem samfélagið hefur gengið í gegnum á síðastliðnu eina og hálfa ári. Nú er unnið að því að loka samningi við annan verktaka um næsta áfanga byggingarinnar sem er sjálf reiðskemman.

Það var nánast sama reiðhallarnefnd og nú situr sem aflaði fjár til reiðhallarbyggingarinnar og tók það nokkur ár þar sem ofurkapp var lagt á að Hörður eignaðist reiðhöllina skuldlausa.  Í fyrstu leit fjármögnunin þannig út að áætlað var að reiðhöllin kostaði 140 millj.kr. og ætlaði ríkið að leggja fram helming þess fjár að því tilskildu að bærinn legði fram það sama á móti.  Þegar við töldum okkur hafa handsalað þann samning við Landbúnaðarráðherra og bæjarfélagið bárust þær fréttir að ákveðið hefði verið að dreifa fjármununum víðar þannig að Hörður fengi aðeins 25 millj. frá ráðuneytinu.  Í framhaldi af því fórum við til Mosfellsbæjar sem féllst á að hækka framlag sitt í 90 millj.  Hörður yrði síðan að leggja fram það sem á vantaði eða 25 millj. Í framhaldi af því var skrifað undir samning við bæjarfélagið um fjármögnun til 6 ára, þannig að Hörður fær 15 millj. á ári, vísitölutryggðar næstu 6 árin. Það var skilyrði frá bænum að við sæjum sjálf um að fjármagna verkið, hvort sem við kysum að byggja nú þegar eða safna peningunum og byggja síðar þegar sjóðurinn væri stærri og lántökuþörfin minni.  Við skynjuðum að þörfin fyrir reiðhöll væri mikill og lögðum því til að farið yrði í bygginguna strax, enda vextir lágir og nóg af lánsfé.  Við sömdum því við Glitni um fjármögnun framkvæmdanna. 

Eftir nokkra umhugsun ákváðum við að leggja til að verkið yrði boðið út í heild, þ.e. að reistu húsi fullfrágengnu að utan.  Þar með var fullnaðarhönnun hússins innifalin í verkinu.  Þetta var gert til að hafa verkið allt á einni hendi og útiloka þar með að verktakinn kenndi ófullnægjandi hönnun um tafir og aukaverk eins og oft vill verða.  Venjulega gefst þessi aðferð mjög vel og minkar verulega líkurnar á aukaverkum með tilheyrandi aukakostnaði.   Leitað var eftir tilboðum í reiðhöllina og var tilboð GT bygg og stál ehf. langlægst eða 88 millj. kr. næsta tilboð fyrir ofan var 100 millj. kr. og önnur mun hærri.  í framhaldi af því var lagt til á almennum félagsfundi sem sérstaklega var boðaður um málið að tilboði GT yrði tekið, enda var það eina tilboðið sem raunhæft var innan þess fjármagnsramma sem félagið hafði.  (Fundargerð félagsfundarins er hér aftast í fréttinni  í fullri lengd.)

Allt fór þetta vel af stað og aðalverktakinn réði til sín arkitekt og verkfræðing sem áttu að skila teikningum í águst 2007, en skila átti okkur reiðhöllinni 1.des.2007.  Arkitektinn skilaði fljótt og vel, þannig að hægt var að grafa og gera burðarpúðann undir reiðhöllina sem tók tiltölulega stuttan tíma, en verkfræðingurinn skilaði ekki teikningum þrátt fyrir að aðalverktakinn legði á hann verulega pressu.  

 

Loks var teikningum skilað, en þær voru ófullnægjandi og sendar til baka.  Svona gekk þetta fram að jólum en þá gafst aðalverktakinn upp og réði annan verkfræðing til starfans.  Sá þurfti að byrja upp á nýtt og lofaði teikningum í  lok febrúar, þær komu í lok mars og voru yfirfarnar af byggingaryfirvöldum.  Það voru gerðar athugasemdir við teikningar og þær sendar aftur til verkfræðingsins og hann beðinn að ljúka þeim sem fyrst.  Sá verkfræðingur lést af völdum veikinda í byrjun maí, áður en hann náði að ljúka teikningunum. 

Á þessum tíma leituðum við tilboða frá öðrum aðilum en þau reyndust öll verulega hærri en tilboð GT eins og áður.  Við áttum því ekki annan kost en að halda áfram og vona að þriðji verkfræðingurinn lyki teiknivinnu sem fyrst svo halda mætti áfram.  Við hugleiddum á ýmsum tímapunktum að segja upp samningi við GT bygg og stál, en komumst jafnan að þeirri niðurstöðu að við hefðum engan annan valkost.

Þá réð aðalverktakinn verkfræðistofuna Verksmiðjuna til verksins, en þeir luku verkinu í ágústmánuði 2008.  Í framhaldi af því var strax farið að reisa sökkla og er því verki nú lokið.  Jafnframt var skemman sett í framleiðsluröð hjá erlenda verktakanum.  Samhliða þessu endurskoðuðum við áætlanir um reiðhöllina sem sýndu að vegna falls íslensku krónunnar hafði áætlunin farið upp um 20 %.  Aðrir liðir en þeir sem voru beintengdir við gengi hækkuðu ekki.   Endurskoðuð áætlun var lögð fyrir bæjarráð og farið fram á að samningurinn okkar við bæinn yrði framlengdur um 2 ár til að mæta þessari hækkun.  Þetta var í lok september, en þá dundu ósköpin yfir eitt af öðru og staða íslensku þjóðarinnar í uppnámi. Við héldum þó áfram að berjast og fullvissaði bæjarstjóri okkur um að bærinn stæði við það sem búið væri að lofa, þó ekki væri hægt að lofa viðbótarfjármagni við þær aðstæður sem nú ríkja í þjóðfélaginu.

Við þessar aðstæður og í ljósi þeirra tafa sem virtust endalaust fylgja verkinu ákváðum við í samráði við stjórn félagsins að leita eftir samkomulagi við GT bygg og stál að þeir færu frá verkinu að sökklum loknum.  Það er ekki einfalt að segja upp verksamningi sem þessum einhliða og geta fylgt því langar og kostnaðarsamar lagaflækjur ef málið fer fyrir dómstóla, til þess þurfti þó ekki að koma.  Í framhaldi af þessari nýju stöðu erum við að kanna alla möguleika um framhald, en besti kosturinn í dag virðist sá kostur sem við áttum síst fyrir fyrir einu og hálfu ári síðan eða límtréshús.  Með gengisþróuninni virðist það hafa snúist við.

Þó þetta mál sé allt hið leiðinlegasta og hreinlega ótrúleg lífsreynsla fyrir okkur sem höfum staðið í eldlínunni þá er staðan í dag illskárri en hún væri ef allt hefði gengið eftir áætlun.

Í dag eigum við undirstöður undir reiðhöll skuldlausar og höfum greitt fyrir þær mjög sanngjarnt verð.  Við eigum 85 milljónir sem við fáum greiddar á næstu 4 árum, að mestu með verðbótum, til að ljúka við verkið. Ef við náum samningum við annan aðila um að byggja reiðhöllina er afgreiðslutíminn í dag um 3 mánuðir.  Í mars 2009 fáum við 15 millj. króna greiðslu frá Mosfellsbæ auk verðbóta sem erum um 3 millj. til viðbótar í dag.  Auk þess fáum við 25 millj. króna greiðslu frá ríkinu þegar húsið er fokhelt.  Í mars fáum við því um 38 millj. greiddar og þurfum því aðeins að taka 47 millj. kr. lán til þriggja ára.

Ef allt hefði gengið eftir áætlun þá væri reiðhöllin risin í dag.  En þá hefðum við þurft að fjármagna hana að mestu með lánsfé til 6 ára.  Lánið hefði verið tekið í ágúst 2007, en á þeim tíma þótti ekkert vit í öðru en taka lán í erlendri minnt til að spara kostnað.  Ráðgjafar bankans héldu þeirri leið að okkur sem öðrum, enda tóku starfsmenn bankanna slík lán sjálfir á þessum tíma.  Lánið hefði verið upp á einar 80 til 90 milljónir, en eins og staðan er í dag stæði slíkt lán líklega í um eða yfir 150 milljónum.  Jafnvel þó einhver „afturhaldsseggurinn“ hefði fengið því framgengt að tekið yrði innlent vísitölutryggt lán, þá væri staða þess og afborganir þannig í dag að allt væri komið í þrot.

Við skiljum vel að Harðarfélögum gremjist að vera ekki búnir að fá sína reiðhöll, en engum sennilega jafn mikið og okkur sem höfum lagt á okkur ómælda ólaunaða vinnu, bæði í frítíma og vinnutíma til að þessi reiðhöll mætti rísa.  Við vonum að þrátt fyrir alla þá erfiðleika sem steðjað hafa að verkinu sé það nú að nást í höfn og við getum litið til þess að reiðhöllin rísi hér á næstu mánuðum.

Með bestu kveðju,

Reiðhallarnefnd

Marteinn Hjaltested, formaður

Guðjón Magnússon

Ólöf Guðmundsdóttir

Sigurður Teitsson

 

 

 

 

 ___________________________________________________________________________

 Hestamannafélagið Hörður

Varmárbökkum Mosfellsbæ

 

Almennur félagsfundur 2.júní 2007, kl. 10.00

  Fundargerð

Dagskrá:

  1.      Stjórn hestamannafélagsins leitar eftir heimild fundarins til að ganga til samninga við GT verktaka um byggingu reiðhallar.

Fundinn sóttu um 20 manns, en nokkur vonbrigði voru að ekki voru fleiri mættir.  Fundurinn var boðaður með heilsíðu auglýsingu í fréttabréfi Harðar sem sent var út þrem vikum fyrir fundinn og telst löglega boðaður samkvæmt lögum félagsins.

Marteinn Hjaltested formaður tók til máls:

“Stjórnin hefur unnið að því að finna fjármagn til byggingar reiðhallar og undirbúa framkvæmdir.  Nú er svo komið að fjármögnun er lokið, við fengum 90 millj. frá Mosfellsbæ, um 25 millj. frá ríkinu og skv. samkomulagi við Mosfellsbæ þurfum við að leggja til um 25 milljónir sjálfir.  Áætlaður kostnaður við reiðhöllina var um 140 milljónir.

Sú stjórn sem farið hefur með málið s.l. þrjú ár hefur alltaf stefnt að því að skila reiðhöllinni skuldlausri til félagsins.

Takmark okkar var að byggja vandaða kennslu og vinnuhöll fyrir félagsmenn Harðar sem staðsett verði hér á félagssvæðinu.  Fyrir um ári síðan fengum við samþykkt deiliskipulag af reiðhöll hér austan við félagsheimilið og í framhaldi af því var gerð tillöguteikning af reiðhöll sem var 26 x 80 metrar með miklum gluggum á norðurhlið. Við höfum nú fallið frá því að vera með mikla glugga á reiðhöllinni þar sem reiðkennarar telja það ekki til bóta og höfum breikkað hana í 30 metra og lengt í 81 metra.

Við höfum fengið tilboð frá 7 aðilum, mis vel útfærð, mis formleg og í mismunandi gæði af byggingum.  Niðurstaða okkar er sú að álitlegasta tilboðið er frá GT verktökum sem bjóða stálgrindarhús frá Ukrainu með Pólskri klæðningu, 30 x 81 metrar að grunnfleti. 

Við höfum nýtt okkur alla afslætti sem við höfum getað kvalið út hjá þeim verktökum sem að málinu koma og teljum að með því hafi sparast um 20 millj. kr.  Við undanskiljum einnig áhorfendapalla úr verkinu og leysum þá sjálf þegar þar að kemur, en þeir eru metnir á um 3 millj. kr.  Með þessu framlagi teljum við okkur hafa uppfyllt það skilyrði Mosfellsbæjar að félagið komi inn með 23 millj. kr.

Við eigum því 117 millj. til ráðstöfunar.

Tilboð GT verktaka í uppreista reiðhöll er 88 millj. með vsk.  Þá á eftir að leggja raflagnir, vatnslagnir, gera snyrtingar, hliðarbatta og reiðgólf, en kostnaður við þessa liði er áætlaður um 13 milljónir.  Heildar byggingakostnaður við reiðhöllina verður því um 101 millj.kr.

Þá standa eftir 16 milljónir sem varið verður í fjármagnskostnað, umsýslukostnað og til að mæta óvæntum uppákomum.”

Orðið var gefið laust og fundarmönnum gefinn kostur á að koma með fyrirspurnir.

Marteinn Magnússon sagði það sína skoðun að reiðhöllin væri of lítil og benti á að á árum áður hafi verið byggð íþróttahús þar sem vantaði örfáa metra upp á að hægt væri að koma fyrir löglegum handbolta og körfuboltavöllum.  Þetta hafi leitt til þess að byggja hefði þurft ný og stærri íþróttahús síðar.  Hættan væri sú að ef við byggðum þessa reiðhöll núna þá þætti hún allt of lítil síðar.

Guðjón Magnússon upplýsti að farið hefði verið yfir þetta af fullum vilja og það kannað hvort og þá hvernig koma mætti fyrir reiðhöll af þeirri stærð sem tæki keppnisvöll.  Niðurstaðan var sú að slíkri byggingu yrði ekki komið fyrir á þessu svæði með tilheyrandi bílastæðum og áhorfendasvæðum.  Því hefði verið tekin ákvörðun um að halda áfram þeirri stefnu að byggja vandaða kennslu- og vinnuhöll fyrir félagsmenn Harðar í nálægð við hesthúsin og fjármögnun þannig háttað að sem ódýrast væri fyrir félagsmenn að nota hana.

MM sagði að ef höllin væri aðeins 90 metra löng í stað 80 mætti koma fyrir 200 metra velli sem nota mætti sem keppnisvöll með undanþágu.

Jóhann Þór sagði að ekki skipti neinu máli hvort reiðhöllin væri 80 eða 90 metrar hvað þetta varðaði.

Þórir Örn sagði það álit sitt að 80 mera reiðhöll væri yfirdrifið nógu stór til þess sem henni væri ætlað.  Fólk yrði líka að hugsa til þess hvernig byggingin færi í þessu þrönga umhverfi.  Löglegur keppnisvöllur væri 250 metrar og til að rúma slíkan völl þyrfti miklu stærri byggingu.

Óskað eftir heimild fundarins til að ganga til samninga við GT verktaka um að byggja 30 x 81 metra vandaða kennslu og vinnureiðhöll.

Þetta var samþykkt með yfirgnæfandi hluta atkvæða.

Fleira var ekki gert og fundi slitið.

_________________________________________________________________________