Nýr samningur milli Harðar og Mosfellsbæjar

Sæl verið þið,

Nú er verið að ganga frá samningi um uppgræðslu og lífræna losun hestataðs á Langahrygg (við Stardal) á milli Harðar og Mosfellsbæjar, en hugmyndin er sú að við fáum svæðið til umráða ásamt skóræktinni og förum í samstarf um að græða það upp.  Við notum þannig hrossataðið til að byggja upp jarðveg og skóræktin plantar trjám og skjólbeltum á svæðinu.  Þegar fram líða stundir verður þarna framtíðar beitarland okkar, reiðleiðir og útivistasvæði Mosfellinga.  Þessi áætlun er metnaðarfull og samræmist reglum Evrópusambandsins um losun á lífrænum úrgangi og sjálfbærni.  Fyrir okkur þýðir þetta fyrst og fremst örugga og kostnaðarlitla

förgun á taði, en til lengri tíma litið erum við að byggja upp framtíðar beitarland, auk þess að stuðla að uppgræðslu landsins.

Stefn er að því að undirrita samninginn með pomp og prakt á næsta þriðjudag, 26.apríl kl. 16.30 fyrir ofan Seljabrekku, ef veður verður leiðinlegt verður þetta í Kjarnanum.  Mér þætti gaman að sjá sem flest ykkar á staðnum, en þarna er um tímamóta samning að ræða sem verður vonandi öðrum bæjarfélögum og hestamannafélögum til eftirbreytni.  Fram að þessu hefur stefnan verið sú að senda allt tað til urðunar í Sorpu sem tekur yfir 20 þúsund fyrir gáminn.  Og eins vitlaust og það nú er, grefur niður hágæða gróðurmold með tilheyrandi kostnaði, olíunotkun og mengun.