Aðalfundur Hestamannafélagsins Harðar 2023/2 - fundargerð

Aðalfundur Hestamannafélagsins Harðar

haldinn í Harðarbóli

miðvikudaginn 29. nóvember 2023 kl. 20:00

Aðalfundur haldinn í Harðarbóli. Mættir stjórnarmeðlimir voru Margrét Dögg Halldórsdóttir formaður, Ragnhildur Traustadóttir gjaldkeri, Ingibjörg Ásta Guðmundsdóttir ritari, Aðalheiður Halldórsdóttir meðstjórnandi, Berghildur Ásdís Stefánsdóttir meðstjórnandi, Anna Lísa Guðmundsdóttir meðstjórnandi og Einar Franz meðstjórnandi. Jón Geir Sigurbjörnsson varaformaður boðaði forföll.

Dagskrá:

  1. Formaður setur fund og tilnefnir fundarstjóra og fundarritara
  2. Formaður flytur skýrslu stjórnar
  3. Gjaldkeri skýrir reikninga félagsins og kynnir 9 mán. milliuppgjör
  4. Umræður um skýrslu stjórnar og reikninga félagsins
  5. Reikningar bornir undir atkvæði
  6. Fjárhagsáætlun næsta árs og umræður
  7. Árgjald ákveðið
  8. Lagabreytingar
  9. Kosningar samkvæmt 6. grein þessara laga
  10. Önnur mál
  11. Fundarslit
  1. Formaður setur fund og tilnefnir fundarstjóra og fundarritara

Margrét Dögg Halldórsdóttir formaður setti fundinn og tilnefndi Sigurð Guðmundsson fundarstjóra og Ingibjörgu Ástu Guðmundsdóttur sem fundarritara og var það samþykkt.

Fundarmeðlimir voru spurðir hvort þeir hefðu athugasemdir varðandi boðun fundarins og hvernig hann færi fram og voru engin mótmæli. 

Síðasti aðalfundur sem haldinn var 9. nóvember var ekki löglegur sökum þess að ekki náðist nægur fjöldi til að fundurinn teldist lögmætur. Samkvæmt lögum félagsins þarf ekki tiltekinn fjölda til þess að þessi fundur sé löglegur. 

Fjöldi mættra fundargesta voru 21 félagsmaður

  1. Formaður flytur skýrslu stjórnar

Formaður fór yfir skýrslu stjórnar sem verður einnig birt á heimasíðu félagsins. 

Stutt samantekt: Félagsmenn teljast í dag 583 talsins. Stjórn fundar reglulega og sitja tengiliðir úr stjórn í hverri nefnd. Stjórn fundar einnig reglulega með fulltrúum bæjarfélagsins um verkefni sem bæði eru í gangi og standa til. Félagið stendur fyrir ýmsum uppákomum og námskeiðum fyrir félagsmenn þar sem góð þátttaka hefur verið. Ný nefnd, kvennareiðnefnd, var sett á laggirnar síðastliðinn vetur með virku starfi ásamt því að starf kynbótanefndar efldist til muna með fyrirlestrum og vali á kynbótahrossi ársins. Íþróttafólk félagsins stóð sig vel bæði á mótum hér heima og á heimsmeistaramóti sem haldið var síðastliðið sumar. Fjölbreytt námskeið voru í boði í reiðhöllinni um veturinn og voru þau vel sótt. Félagshesthúsið gekk vel og er í mikilli þróun. Viðhald hefur verið á vellinum til þess að safnist ekki fyrir vatn og nýtt efni sett í gólf reiðhallarinnar sem ætti að duga lengur og vera mýkra. Rúlluplastgámur var settur við reiðhöllina ásamt litlum gámi fyrir flöskur og dósir. Breytingar hafa nýverið orðið á að Mosfellsbær taki að sér vinnuna við að sjá um reiðvegaframkvæmdir. Fyrsti hluti af lýsing á Tungubakkahringnum fer í útboð núna eftir áramót og útboð á nýjum hesthúsalóðum á einnig að fara í úthlutun áður en framkvæmdir hefjast. Lóðaleigusamningar hafa verið lagaðir af bænum fyrir hesthúsaeigendur svo þeir gilda til ársins 2050. Beitargjald hækkaði í takti við hækkað áburðarverð og komu beitarhólfin almennt vel út eftir sumarið. Vaktir meðal beitarleigjenda voru settar öðruvísi á síðasta sumar og gekk vel að fanga og finna eigendur þeirra hrossa sem sluppu, sem er því miður enn of algengt. Félagið fékk viðurkenningu sem fyrirmyndarfélag ÍSÍ endurnýjaða, nokkuð sem við megum vera stolt af. 

Nánar má lesa skýrslu formanns og nefnda á síðu félagsins. 

  1. Gjaldkeri skýrir reikninga félagsins og kynnir 9 mán. milliuppgjör

Ragnhildur gjaldkeri fór yfir ársreikning félagsins og 9 mánaða milliuppgjörið.

Reikningar félagsins og 9 mánaða milliuppgjör er svo birt á heimasíðu félagsins.

  1. Umræður um skýrslu stjórnar og reikninga félagsins

Lottótekjur milli ársins 2021 og 2022 lækkuðu töluvert milli ára. Þessum tekjum er útdeilt og er ástæðan fyrir meiri upphæð árið 2021 sú að félagið sótti um auka styrk frá ÍSÍ vegna Covid sem fellur undir þennan lið. 

Engar fleiri fyrirspurnir bárust til gjaldkera eða formanns.

  1. Reikningar bornir undir atkvæði

Engin mótmæli bárust og voru reikningarnir ársins 2022 samþykktir samhljóða með öllum greiddum atkvæðum. 

  1. Fjárhagsáætlun næsta árs og umræður

Ragnhildur gjaldkeri kynnti fjárhagsáætlun 2024. Fjárhagsáætlun stjórnar verður birt á heimasíðu félagsins í kjölfar fundar. 

  1. Árgjald ákveðið

Stjórn leggur til að árgjald verði óbreitt fyrir árið 2024. Sú ákvörðun samþykkt. 

  1. Lagabreytingar

Í fundarboðinu voru tilkynntar lagabreytingar sem voru teknar fyrir á fundinum. Fellur lagabreytingin undir 4., 5., 6. og 11. grein félagsins, þar sem breyting er á tilteknum fjölda sem þarf á aðalfund til þess að hann teljist lögmætur. Lögin kveða á fyrir að 1/10 félagsmanna þurfi að mæta á aðalfund, en breytingin felur í sér að 25 félagsmenn þurfi að mæta á aðalfund svo hann teljist lögmætur og þ.a.l. kosningar geta farið löglega fram með þeim fjölda. Sama breyting er á höfðatölu í þessum ofangreindum greinum laga félagsins.  Ein breytinganna snýr að framboðsfresti til stjórnarsetu, skal slíkt hér eftir tilkynnt með 7 daga fyrirvara.

Allir fundargestir samþykkja lagabreytingarnar og eru þá lagabreytingarnar samþykktar. 

  1. Kosningar samkvæmt 6. grein þessara laga

Formaður er kosinn ár í senn og má bjóða sig fram þrisvar. Margrét Dögg Halldórsdóttir gefur aftur kost á sér og þar sem ekkert mótframboð barst er Margrét kjörin formaður félagsins áfram. 

Fjórir stjórnarmenn ganga úr stjórn ár hvert. Þeir sem ganga úr stjórn geta verið endurkjörnir ef þeir bjóða sig áfram til starfa. Úr stjórn eiga að ganga Anna Lísa, Ingibjörg Ásta, Einar Franz og Berghildur Ásdís. Þau bjóða sig öll fram áfram til næstu tveggja ára. Engar aðrar tillögur komu fram svo þessir stjórnarmenn eru endurkjörnir. 

Sveinfríður Ólafsdóttir og Þröstur Karlsson voru tilnefnd sem skoðunarmenn reikninga. Ekkert mótframboð barst eða mótmæli svo það samþykkt. 

  1. Önnur mál

Spurn barst um lóðirnar sem verða úthlutaðar. Bærinn sér um lóðaúthlutunina. Þeir vildu meina að þær væru svo dýrar að enginn myndi vilja kaupa þær. Þeir eru búnir að áætla kostnað að lóð undir lengju sé í kringum 20 milljónir. Inní því er gatnagerð og tilheyrandi lagnavinna. En áhugi er hjá félaginu að halda þessu áfram og geti þá fólk boðið í þessar lóðir ef áhugi er fyrir hendi. Nú verði að fara að höggva á hnút og koma þessu til framkvæmda, sé ekki áhugi þá skýrist það fljótt og málið verður allt endurskoðað.

Spurning barst úr sal varðandi auglýstan fundartíma hesthúsaeigendafélagsins, en lítið bar á auglýsingu á fundi félagsins. En það er alfarið á þeirra borði, en aðalfundur þeirra var auglýstur í ár á heimasíðu hestamannafélagsins og facebooksíðu.  

  1. Fundarslit

Margrét formaður félagsins slítur fundi kl 21:05

Fundargerð ritaði Ingibjörg Ásta Guðmundsdóttir