Skýrsla stjórnar 2022

 

Stjórn hestamannafélagsins Harðar: 

Formaður:

Margrét Dögg Halldórsdóttir

Aðalstjórn:

Anna Lísa Guðmundsdóttir                                               Kjörin   2021

Ingibjörg Ásta Guðmundsdóttir                                       Kjörin   2021

Einar Franz                                                                   Kjörinn 2021

Berghildur Ásdís Stefánsdóttir                                       Kjörin 2021

Jón Geir Sigurbjörnsson                                                      Kjörinn 2021 (2020)

Aðalheiður Halldórsdóttir                                                    Kjörin 2021 (2020)

Magnús Ingi Másson                                                     Kjörinn 2021 (2020)

Ragnhildur B. Traustadóttir                                              Kjörinn 2021 (2020)

Áheyrnarfulltrúi:

Ásta Björk Friðjónsdóttir

Skoðunarmenn:

Sveinfríður Ólafsdóttir

Þröstur Karlsson

Starfið

Hestamannafélagið Hörður telur í dag 633 félaga.  

Stjórn hefur fundað mjög reglulega og ýmis mál komið inn á borð.  Tengiliður stjórnar situr í flestum nefndum félagsins, þær hafa fundað eftir þörfum og eru nokkuð sjálfstæðar í sínum verkefnum.  

Starfsmenn félagsins á árinu voru Rúnar Sigurpálsson framkvæmdastjóri í 50 % starfi sem sér m.a. um reiðhöllina, hringvöllinn og allar framkvæmdir á vegum félagsins og Sonja Noack einnig í 50 % starfi sem sér um samskipti við nefndir, skráningar á námskeið, sendir út reikninga og sinnir dags daglegum skrifstofustörfum o.fl. Auk þess starfar Sonja sem yfirreiðkennari félagsins. Guðrún Magnúsdóttir sér enn um útleigu á Harðarbóli og starfar við veislur þar og þrif að auki.

Reglulega var fundað með starfsmönnum Mosfellsbæjar og fyrirliggjandi er fundur með nýjum bæjarstjóra til að ræða okkar málefni og hagsmuni.  Eins höfum við átt samtal með pólitískum fulltrúum nefnda og verður vonandi aukning á slíku.

Framan af síðasta vetri eimdi aðeins eftir af covid takmörkunum, gamlársreið var aflýst og í janúar og febrúar gátum við ekki haldið mót og samkomur, ÍSÍ hélt áfram að gefa út reglur og óvissa var nokkur. Námskeið og kennsla var þó með nokkuð hefðbundnum hætti.  Strax í febrúar fór þó að rofa til og vetrarmót fóru í gang og kótilettukvöld var haldið með feikna góðri aðsókn og miklu fjöri þan 26.febrúar.  Það var þó einhvernvegin strembið að snúa öllu í gang aftur og stjórn ákvað að fella niður árshátíð félagsins, ekki tókst að okkar mati að manna vinnu við viðburð af því tagi.  Það reyndist algerlega rangt, tvær öflugar konur í félaginu sneru hjólum hratt og skelltu í fínustu árshátíð þann 12.mars með aðkomu duglegra félaga.  Fyrirtaks skemmtiatriði og fullur salur af fólki, greinilegt að fólk var orðið þyrst eftir að koma saman og skemmta sér!  Mikið hrós til þeirra sem að þessu komu!

Strax eftir árshátíðina, 14. mars var haldinn félagsfundur sem hafði áður verið frestað um framtíðaráform fyrir keppnissvæðið okkar og byggingu fleiri hringgerða.  Skemmst er frá að segja að fundurinn var frábær og mjög gagnlegar umræður fóru fram. Það er afar mikilvægt fyrir stjórn að eiga gott samtal við félagsmenn og vinna þar með að þeim verkum sem félagar sjálfir hafa áhuga á.  Við erum enn að vinna að þeim verkefnum sem fram kom á fundinum að áhugi væri fyrir að skoða, hlutir gerast stundum hægar en við vildum en á meðan eitthvað þokast þá er það jákvætt.  Við erum með stórframkvæmdir við vallarsvæðið á ís en setjum meira púður í að skoða og staðsetja þriðja hringgerðið sem yrði yfirbyggt.  Mögulega gæti það risið fljótlega á næsta ári.

Hreinsunardagur var á sínum stað og hefðbundnir viðburðir aftur á dagskrá, Fákur kom í heimsókn og við fórum til þeirra.  Fákur varð 100 ára á þessu ári og við fögnuðum með þeim í veislu og í miðbæjarreiðinni sem þeir efndu til í samstarfi við LH.

Stóra kvennareiðin varð að litlu kvennareiðinni sem var sérlega skemmtileg og vel heppnuð. Þar var skipuð fjölmenn kvennareiðarnefnd sem mun skipuleggja kvennareiðir framtíðarinnar.

Náttúrureiðin varð líka smærri í sniðum en stundum áður, það er þó mikilvægt að halda inni í dagskrá þessum viðburðum þó ekki takist alltaf að slá í stórviðburði.  Það má ekki gleymast að það þarf mannafla til að leggja á sig vinnu svo þessir viðburðir stórir og smáir geti orðið.

Í vor fengum við tilboð í létta jakka frá Hrímni sem voru hugsaðir sem eins konar félagsjakkar, merktir Herði, fyrir Landsmót.  Mátun fór fram í reiðhöllinni og voru viðtökur mjög góðar og jakkarnir vöktu lukku.  Eins var pantað aðeins umfram af húfum þegar yngri keppendur okkar á landsmóti voru „fötuð upp“ og augljóst að við þurfum að panta meira af slíkum varningi til að selja félagsmönnum, margir vilja gjarnan bera merki félagsins og er það hið besta mál! Verður boðið upp á slíkan varning í vetur.

Mótahald var með frekar hefðbundnum hætti, vetrarmót og svo stærri mótin í vor. Mótanefnd bryddaði líka upp á æfingamótum og tölumótum svokölluðum, vel virk og dugleg nefnd.

Landsmót fór svo loksins fram í sumar, hestamannafélagið Adam í Kjós hafði sínar úrtökur með okkar og er sjálfsagt og gaman að eiga í samstarfi við þá nágranna okkar.  Hörður átti rétt á að senda 6 keppendur í hvern flokk og tvo varahesta að auki. Fulltrúar okkar í öllum flokkum stóðu sig með prýði og voru félaginu til sóma.

Bestum árangri náðu þessir:

Benedikt Ólafsson og Biskup frá Ólafshaga sigruðu ungmennaflokkinn. Úrslit við afar erfiðar aðstæður voru engin fyrirstaða, sýndu þeir félagarnir frábæra takta í úrslitunum.  Benedikt landaði einnig fjórða sætinu gæðingaskeiði á Leiru-Björk.

Tumi frá Jarðbrú vann B úrslit í B flokki og endaði í öðru sæti í A úrslitum, alveg stórkostlegur árangur, knapi var Jakob Sigurðsson.  Flóvent frá Breiðstöðum og Aðalheiður Anna Guðjónsdóttir tóku einnig þátt i B úrslitum og enduðu þau í fimmtánda sæti.  

Glúmur frá Dallandi keppti í A úrslitum í A flokki og varð þar í áttunda sæti, knapi var Sigurður Vignir Matthíasson.

Reynir Örn Pálmason og Týr frá Jarðbrú enduðu í níunda sæti í slaktaumatölti.

Harðarfélagar nutu sín í brekkunni og hvöttu sitt fólk svo eftir var tekið!

Á 98. ársþingi UMSK í vor hlaut hestamannafélagið Hörður hvatningarverðlaun UMSK 2021 fyrir starf fræðslunefndar fatlaðra.  Verðlaununum fylgdi peningastyrkur og erum við ákaflega stolt og þakklát fyrir þessa viðurkenningu á fyrirmyndar starfi á þessum frábæru reiðnámskeiðum.

Félagshesthús var loksins starfrækt síðastliðinn vetur.  Leigð voru pláss fyrir 12 hesta í Blíðubakkahúsinu og tóku 15 krakkar þátt í verkefninu, 9 með sinn eigin hest en 6 með 3 lánshesta (2 saman um hest).  Hestamennt studdi verkefnið afar myndarlega með láni á hestum og búnaði.  Mosfellsbær kom svo að verkefninu með góðan fjárstyrk. Sara Bjarnadóttir og Natalie Moser skiptu með sér vinnu við verkefnið og auk þess kom Ragnheiður Þorvaldsdóttir að kennslu og Sonja Noack sá um ýmsa umsýslu.  Við keyrðum á mjög stóra útgáfu af svona félagshúsi, þjónustan var gríðarlega mikil og vönduð.  Það tókst afar vel til en við höfum þó ákveðið að minnka umsýsluna verulega fyrir næsta starfsár, Natalie Moser mun sinna utanumhaldi næsta vetur með aðstoð Sonju Noack og verður meiri blöndun barna í félagshesthúsi og annarra barna í Herð hvað varðar námskeið og ýmsa viðburði.

Starfssemi nefndar heldri hestamanna og kvenna hefur legið niðri síðan í covid, en mun fara í gang nú í haust og vetur.

Fasteignir

Rekstur reiðhallarinnar gekk vel og var nokkuð eðlileg útleiga á henni síðasta vetur, FMos með kennslu líkt og áður og námskeiðahald í föstum skorðum.  Aðgangur félagsmanna með lyklum var í samræmi við fyrri ár.  Gólfið var endurbætt verulega í fyrra og virðist ætla að duga vel, væntanlega verður bætt eitthvað af flís við fyrir komandi vetur. Eins er búið að bæta aðstöðu í stíum frammi í anddyri hallarinnar og koma búnaði sem við keyptum í vetur fyrir innst í höllinni, hann mega félagsmenn nota að vild en ganga vel um auðvitað. Tækið sem keypt var aftan í traktorinn til að jafna reglulega gólfið reynist frábærlega, ekki bara í reiðhöllinni heldur líka á keppnisvöllunum. Rukkað var fyrir auglýsingaskilti í reiðhöllinni samkvæmt samningum, töf hefur orðið á að taka niður skilti sem er ekki lengur að greitt fyrir, það stendur til bóta.  Stjórn ákvað að endurnefna reiðhallar og vallarnefnd og heitir hún nú Umhverfis og mannvirkjanefnd, farið verður í vinnu við að skilgreina betur hlutverk nefndarinnar nú á næstu vikum og fjölga fólki í henni.

Harðarból var í útleigu sem aldrei fyrr eftir að takmörkunum létti. Verið er að sinna nokkrum endurbótum og í ljós kom að við þurftum að endurnýja rekstrarleyfi fyrir húsið.  Töluverð vinna hefur farið í það og er enn í gangi, verið að lagfæra brunavarnir til dæmis samkvæmt nýjustu stöðlum og reglum.  Við verðum væntanlega komin með leyfi í lag fyrir áramót og húsið ætti að standast allar kröfur eftirlitsaðila.  Það þarf að fara að mála og sinna minniháttar öðru viðhaldi, klára að innrétta skrifstofuna svo eitthvað sé nefnt.  En húsið skilar okkur fínum tekjum og leigjendur eru mjög ánægðir með aðbúnað.

Keppnisvöllurinn og litli völlurinn fengu þarft viðhald í vor og sumar.

Umhverfi

Töluverðar kvartanir hafa borist stjórn vegna aðstöðu sem verktaki hefur við enda fótboltavallarins á Tungubökkum.  Þar hafa þegar orðið slys sem má rekja til tækja og búnaðar sem þar er geymdur og stafar hætta af þessu.  Nú hefur verið lofað að þetta svæði sem tilheyrir í raun okkar íþróttasvæði verði rýmt fyrir næstu áramót.

Pöntuð voru skilti til að setja upp við útjaðra á okkar helstu reiðleiðum og íþróttasvæði, þau verða sett upp í haust. Tiltekið er á þeim að þar sé okkar íþróttasvæði og hverjir eiga þangað ekki erindi. Einnig hefur fengist vilyrði frá bænum að bæta verulega í merkingar reiðleiða með boðskiltum, við erum að leggja upp áætlun með hvar þeirra er þörf og fáum vonandi nokkur skilti á ári þar til nóg er komið.  Búið er að óska eftir hliði á stíg sem óvænt var lagður efst í Leirvogstungu og kemur inn á reiðstíg upp með Köldukvísl, þar er veruleg slysahætta og verður að setja einhvern tálma á umferð úr hverfinu á stíginn. Hraðahindrunin sem var sett upp á Harðarbraut í fyrra heldur enn, en virðist þó ekki gegna sérstöku hlutverki við að draga úr hraða, ekið er allt of hratt í hverfinu og umhugsunarefni hvernig hægt er að höfða til fólks að gera slíkt ekki.

Enn er vöntun á kerrustæðum og erfitt að finna flöt á því, þó eru nokkrar hugmyndir í skoðun og vonandi finnst lausn á næstunni.

Úthlutun nýrra lóða tefst enn, en við stóðum í þeirri meiningu um úthlutun væri alveg að bresta á, allavega áttu framkvæmdir við gatnagerð að hefjast síðasta vor.  Svo fór þó ekki og skýringin sem var gefin var að kosningar og nýr meirihluti hefðu sett allt í pásu, nýi meirihlutinn þyrfti að taka ákvörðun um framhaldið.  Þessu var harðlega mótmælt og í raun gefum við lítið fyrir þessar skýringar.  Vinna samkvæmt áætlun og fyrirfram ákveðnu deiliskipulagi getur ekki farið svona gersamleg úr skorðum við kosningar.  Svo virðist allavega ekki hafa orðið um allar framkvæmdir í bænum.  Við höldum áfram að þrýsta á þessa framkvæmd og að lóðum verði úthlutað við Freyjubakka fyrr en seinna.

Reiðleiðir

Okkar aðal reiðleiðir voru lagfærðar eins og undanfarin ár, ekki mikið um nýframkvæmdir en við erum að vinna við að fá reiðleiðina út úr hverfinu að Tungubökkum færða niður fyrir Skiphól.  Það þokast þó hægt sé og er nú í lokaúttekt og umfjöllun hjá Mosfellsbæ. 

Í skýrslu reiðveganefndar er tíundað hvaða verkefni var unnið við á árinu.

Ýmislegt 

Í vor var endurnýjaður og undirritaður samningur við Mosfellsbæ. Var það gert við hátíðlega athöfn í Hlégarði þar sem öll tómstundafélög í bænum undirrituðu samninga einnig. Í samningnum sem gildir til ársloka 2024 eru tilgreind framlög bæjarins til innra starfs félagsins og skyldur Harðar á móti. Vert að þakka Mosfellsbæ fyrir öflugan stuðning við félagið.  

Undanfarnar vikur hefur verið unnið í að skýra og fá endurnýjaða lóðaleigusamninga á svæðinu.  Mosfellsbær telur ekki þörf á að gera nýjan samning til lengri tíma því samningurinn sem er í gildi endurnýjast um tvö ár í senn sjálfkrafa, sé honum ekki sagt upp með þá 6 mánaða fyrirvara.  Við þurfum að skoða þetta betur með lögfróðu fólki og fer sú vinna í gang nú strax eftir aðalfund.  

Beit var úthlutað venju samkvæmt og áburður hækkaði ekki þó innkaupsverð hafi hækkað.  Skil voru í nokkuð góðu lagi og spretta með þeim hætti að nokkrir aðilar fengu að nýta hólfin lengur en reglur almennt kveða á um.  Sumir hefðu viljað sleppa hestum fyrr út í vor en Mosfellsbær fer með vald til að segja til um slíkt og taldi ekki ástæðu til.  Einhver hólf hefðu gjarnan þolað meiri nýtingu, sérstaklega framan af sumri.  Örfá voru of mikið nýtt á köflum.   Þetta verður allt tekið upp við viðkomandi notendur.

Það bar óvenju mikið á lausum hestum úr beitarhólfum á svæðinu í sumar. Vandinn felst að einhverju leiti í rafmagnsleysi á girðingum, en það er eitt af skilyrðum fyrir úthlutun hólfa að þau séu girt með viðunandi hætti og rafmagn haldist á girðingum. Álag á framkvæmdastjóra félagsins var umtalsvert af þessum sökum og starfsfólk Mosfellsbæjar fór heldur ekki varhluta af þessu.  Það er ekki svo að skilja að það hafi hlaupið laus hross um allan bæ alla daga, en þetta var óvenju áberandi.  Við munum taka á þessu rafmagnsleysi með einhverjum hætti næsta sumar, það þarf að velta fyrir sér hvernig slíkt er gert, með auka gjaldi eða hreinlega brottvísun úr hólfum.  Við allavega getum ekki horft framhjá þessu skilyrði og látið sem ekkert sé.

Framkvæmdaáætlun til næstu ára er árlega uppfærð og send Mosfellsbæ. Gott er að vinna eftir slíkri áætlun og hafa yfirsýn yfir þau verkefni sem við viljum fara í og hver aðkoma bæjarins er að þeim. Það hefur lítið þokast áfram af þessum verkefnalista samt sem áður en við ætlum okkur að bæta þar úr og vera í virkara samtali við Mosfellsbæ með það.  Áhersla á næstunni verður lögð á að fá loksins lýsingu á Tungubakkahringinn, nokkuð sem mynd breyta verulega miklu fyrir okkur við útreiðar yfir veturinn. Við skynjum vilja hjá bænum til að fara í þetta verkefni, vonandi tekst að koma því á framkvæmdastig.

Nokkrar tilkynningar og ábendingar hafa borist í gegnum þar til gerða hnappa á heimasíðunni okkar og höfum við reynt að bregðast við þeim eins og efni standa til. Báðir hnapparnir eru rétt og stutt boðleið til stjórnar svo við fáum einhverja yfirsýn yfir það sem þarf að laga og almennir félagsmenn geti lagt sitt af mörkum til innra starfs félagsins með beinum hætti.

Benedikt Ólafsson og Aðalheiður Anna Guðjónsdóttir voru kjörin íþróttamaður og íþróttakona Harðar 2021 og hlutu viðurkenningu á árshátíðinni.  Viðurkenningin sjálfboðaliði ársins (félagsmaður ársins) er nýlunda sem LH stóð fyrir að hestamannafélög tækju upp hjá sér, jafnframt því sem LH heiðraði svo sjálfboðaliða ársins á landsvísu.  Markmiðið er að vekja athygli á þeirri vinnu sem sjálfboðaliðar hestamannafélaga inna af hendi fyrir félaga sína og jafnframt umbuna fyrir vel unnin störf. Ragnhildur Bjarney Traustadóttir var tilnefnd fyrir okkar hönd, hún var heiðruð á árshátíð Harðar.

Kynbótahross í eigu félagsmanna sem náðu bestum árangri á kynbótasýningum 2021 voru heiðruð á árshátíðinni og þau kynnt.

Nefndir félagsins hafa að venju staðið sig afburða vel og verður seint fullþakkað þeim sem leggja á sig vinnu fyrir félagið í sjálfboðastarfi og þannig fyrir alla félaga.  Án sjálfboðaliðastarfs er mjög þungt að reka svona félag og félagsstarfið.  Það þarf alltaf einhvern til að vinna verkin.  Enn er stefnt að því að halda nefndakvöld eins og var hér á árum áður þar sem hægt er að stilla saman strengi fyrir komandi starfsár og þakka fyrir það sem hefur verið lagt fram undanfarið.

Skýrslur frá nefndum félagsins eru komnar á heimasíðu félagsins, þar verða líka birtir ársreikningar og skýrsla stjórnar.  

Félagið stendur vel fjárhagslega og er rekstur í nokkuð föstum skorðum.  Hestamannafélagið Hörður hefur verið fyrirmyndarfélag innan ÍSÍ og þessa dagana er unnið að endurnýjun þeirrar viðurkenningar, það þarf að gera á fjögurra ára fresti.  Félagið á enn fulltrúa í varstjórn UMSK, við höfum sótt þangað til að mynda nokkra styrki og má gera enn betur þar. 

Það hefur verið ánægjulegt að sjá félagsstarfið taka aftur við sér eftir covid faraldurinn, sumt snýst hægar í gang en annað en þetta kemur allt.  Við í stjórn höfum lagt áherslu á að eiga virkt samtal við félagsmenn, það má gera betur þar og er það vilji okkar að svo verði.  Unnið verður að því í haust að fjölga fólki í nefndum og virkja þær betur, auglýsingar eftir fólki hafa ekki skilað miklu svo nú verður farið í einhverskonar “hausaveiðar“... Nokkrar nefndanna hafa einhvernvegin dottið út í covid og skilgreining á starfi orðið óljósari. Við bætum úr því og sýnum okkar sanna félagsanda trúi ég!

Dags daglegt stúss formanns og stjórnar snýst að miklu leiti um hagsmunagæslu út á við, það er sótt að okkur úr mörgum áttum, reiðvegamál ber þar líklega hæst.  Eins að gera okkur sýnileg fyrir stjórnvöldum og kynna það frábæra starf sem fer hér fram og hestamennskuna sem lýðheilsuverkefni og mikilvægan part af samfélaginu.

Stjórn Harðar þakkar félagsmönnum fyrir starfsárið og hlakkar til samstarfs og samveru í framtíðinni.

Mosfellsbæ 27.10.2022

Fh stjórnar Harðar

Margrét Dögg Halldórsdóttir formaður