Aðalfundur 2010

logo_hordur

 

 

 

Hestamannafélagið Hörður
Aðalfundur 2010

Dags. 25. nóvember 2010
Haldinn í Harðabóli kl. 20.00

Mættir 52 manns, þar með talið aðalstjórn. Mættir frá aðal- og varastjórn: Guðjón Magnússon formaður, Guðmundur Björgvinsson varaformaður, Sigurður Teitsson meðstj., Ingimundur Magnússon meðstj., Gyða Á. Helgadóttir meðstj., Sigurður Guðmundsson varam., Sigurður Ólafsson varam.,

Fjarverandi frá aðal- og varastjórn: Guðný Ívarsdóttir gjaldk, Ragnhildur Traustadóttir meðstj. og Þórir Örn Grétarsson varam.

Dagskrá skv.5. grein laga Hestamannafélagsins Harðar:

1)      Formaður setur fund og tilnefnir fundarstjóra og fundarritara.

2)      Formaður flytur skýrslu stjórnar.

3)      Gjaldkeri skýrir reikninga félagsins og kynnir 9 mán. milliuppgjör.

4)      Umræður um skýrslu stjórnar og reikninga félagsins.

5)      Reikningar bornir undir atkvæði.

6)      Fjárhagsáætlun næsta árs og umræður.

7)      Árgjald ákveðið.

8)      Lagabreytingar.

9)      Kosningar samkvæmt 6. grein.

10)   Önnur mál.

11)   Fundarslit.

1. Formaður setur fund og tilnefnir fundarstjóra og fundarritara

Formaður setur fund og stingur upp á Marteini Magnússyni sem fundarstjóra og Gyðu Árnýju Helgadóttur sem fundarritara sem er samþykkt af fundarmönnum.

Fundarstjóri þakkar traustið og athugar hvort löglega hafi verið boðað til fundarins sbr. 5. grein laga um aðalfund. Engin mótmæli komu fram og telst fundurinn því löglegur.

2. Formaður flytur skýrslu stjórnar

Fundarstjóri kynnir Guðjón formann sem flytur skýrslu stjórnar:

Haldnir voru 9 formlegir stjórnarfundir á starfsárinu og funduðu nefndir reglulega um sín málefni.  Heimasíðan var notuð fyrir upplýsingaflæði til félagsmanna og upplýsingataflan  er einnig mikið notuð. Við bættum svo við  Fréttabréfi Harðar sem birtist reglulega í Mosfellingi en það samstarf hefur tekist vel.

Liðið ár hefur að mestu verið spennandi og gott ár fyrir okkur sem starfað hafa fyrir félagið og fjáröflun hefur gengið vonum framar þrátt fyrir kreppu og almennan samdrátt.

Það var þó ekki allt gott við árið,  Það kom upp hósti sem herjaði  á alla hesta félagsmanna í vor og setti hestamennskuna í landinu í uppnám.,  Þetta sýnir okkur enn og aftur að það er brýn nauðsyn  að til sé aðgerðarplan sem fer í gang þegar vart verður við sýkingar.  Mér skilst á veirufræðingi að af öllum þeim hestapestum sem til eru erlendis og erlendir hestar eru í flestum tilfellum bólusettir fyrir, þá sé paddan sem kom til okkar í vor ein sú skásta.

Bruni varð í hesthúsahverfinu, annar stórbruninn á 10 ára tímabili, og brunnu tvö hesthús til grunna og annað skemmdist mjög mikið.  Við ákváðum strax að veita aðstoð með þeim hætti sem við gætum, bæði vegna þess að við finnum öll til samkenndar þegar svona kemur upp á, en auk þess er það hagur félagsins að uppbyggingin gangi fljótt og vel fyrir sig.  Það voru þó strax lagðar skýrar línur varðandi aðstoðina þar sem húsin eru í einkaeign og því ekki verjandi að nota fjármuni félagsins sem slíks í verkefnið.

Félagsmenn Harðar standa saman gegnum súrt og sætt og hefur félagslífið frekar blómstrað í kreppunni en hitt.  Félagar hafa tekið rösklega til hendinni í ár,  kvennadeildin og Makkerinn sjá um alla matseld í Harðarbóli, æskulýðsnefndin hefur stýrt glæsilegu barna og unglingastarfi í vetur í nýju reiðhöllinni, fræðslunefndin hefur skipulagt metnaðarfullt fræðslu og kennslustarf, reiðveganefndin vinnur hörðum höndum að bættum reiðvegum, árshátíðarnefndin hélt frábæra árshátíð  og svo mætti lengi telja.  Ég vil enn og aftur þakka ykkur öllum fyrir þann áhuga og þann tíma sem þið gefið félaginu okkar, án þess væri ekkert félag.

Þau praktísku verkefni sem eru framundan eru þessi helst:

  1. Reiðleiðir fjær hesthúsahverfinu
  2. Val á stað fyrir nýtt hesthúsahverfi sem verður byggt þegar þetta verður fullbyggt.
  3. Förgun eða losun á skít frá hesthúsunum, önnur lausn en Sorpulausnin sem kostar tugir þúsunda í hvert skipti sem losað er.
  4. Og svo auðvitað áframhaldandi rekstur félagsins okkar, æskulýðsstarf, mótahald, kennsla, ferðir, beitarmál o.fl. o.fl.

Afreksmannasjóður Harðar og Mosfellsbæjar

Afreksmannasjóður Harðar og Mosfellsbæjar er til þess ætlaður að styrkja einstaklinga sem skara fram úr í íþróttinni, þjálfara til námsferða o.þ.h.  Allir Harðarfélagar geta sótt um styrk úr sjóðnum.  Stjórn sjóðsins skipa fulltrúi Mosfellsbæjar, sem í dag er Sigurður íþróttafulltrúi Mosfellsbæjar, formaður Harðar og einn kosinn á aðalfundi. Síðastliðið ár var gjaldkeri félagsins Guðný Ívarsdóttir kosinn í stjórn sjóðsins.

Sjóðurinn Styrkti Arnar Loga Lúthersson í ár og notaði hann styrkinn til að létta sér að komast á Norðurlandameistaramótið.

 

Skógarhólar

Skógarhólar standa okkur Harðarmönnum nær en flestum öðrum hestamannafélögum. Staða Skógarhóla í dag er sú að LH er búið að  stofna einkahlutafélag Skógarhólar ehf,  sem sinna mun málum Skógarhóla og sit ég í stjórn þess félags.  Félagið er nú að skoða framtíðarmynd Skógarhóla með Þingvallanefnd og er samstaða um það með nefndinni að staðurinn verði áfram þjónustusvæði fyrir hestamenn.

Fastir liðir

Fastir liðir eins og reið til nágranna í nærliggjandi sveitarfélögum voru á sínum stað auk þess sem við tókum vel á móti félögum okkar þegar þeir komu í heimsókn til okkar.  Það var ánægjulegt að sjá hversu stóran hóp Lilla leiddi í þessar félagsreiðir í vor, þrátt fyrir hóstapest.

Gott samstarf hefur verið við bæjaryfirvöld Mosfellsbæjar og gildir þá einu hvort um stjórn- eða stjórnarandstöðu var að ræða, en við teljum okkur vera að merkja að aukinn skilningur er á íþróttinni á meðal bæjarfulltrúa frá ári til árs.  Bent hefur verið á að Mosfellsbær hefur algjöra sérstöðu hvað varðar hlutfall bæjarbúa sem eru í hestamennsku, en það lætur nærri að um 8 % bæjarbúa séu í hestamannafélaginu, að auki telur LH að 2-3 til viðbótar stundi hestamennsku án þess að vera formlega skráð í félag, svo iðkendur hestamennsku í Mosfellsbæ gætu numið yfir 20 % af íbúafjöldanum

5 starfsmenn á vegum bæjarins

Við fengum 5 starfsmenn frá bænum til að vinna hér á Harðarsvæðinu í sumar.  Þeir starfskraftar nýttust vel, máluðu Harðarból að utan og báru á tréverkið í reiðhöllinni.

Nýtt hesthúsahverfi í Mosfellsbæ

Eins og áður hefur komið fram er unnið að því hjá bæjarskipulaginu að finna nýju hesthúsahverfi staðsetningu, það mál er í ferli, en engin ákvörðun hefur enn verið tekin.

60 ára afmæli Harðar í ár og afmælishátíð

Í ár var 60 ára afmæli Harðar og var árshátíðin með sérstöku sniði í tilefni að því.  Við buðum og heiðruðum sérstaklega þá stofnendur félagsins sem enn eru á lífi.  Við héldum árshátíðina ekki í Hlégarði að þessu sinni, enda virðist ómögulegt halda hana þar án þess að borga 2 til 300 þúsund með henni á hverju ári.  Árshátíð var haldin í leiguhúsnæði, öll skemmtiatriði voru frá félagsmönnum sjálfum, enda nóg af skemmtilegu fólki í Herði og  skilaði árshátíðin 200 þúsund kr. hagnaði að þessu sinni sem er að sjálfsögðu frábært.  Hætt var að selja miða þegar 200 miðar höfðu verið seldir, enda leifði húsrúm ekki meira.

Saga Harðar skrifuð

Helgi Sigurðsson dýralæknir hefur tekið að sér ásamt fleiri mætum mönnum að skrifa sögu félagsins.  Þeir vinna að gagnasöfnun í sjálfboðavinnu, en þegar og ef við ákveðum að gefa söguna út í bókaformi þarf að sjálfsögðu að fjármagna það, en það verður gert með frjálsum framlögum og sölutekjum bókarinnar.

Íþróttamaður Mosfellsbæjar

Linda Rún kjörin íþróttamaður Mosfellsbæjar, en það er annar íþróttamaður Mosfellsbæjar sem Hörður á, á þriggja ára tímabili.

Hestabraut í framhaldsskólann

Við höfum verið að vinna að því í samstarfi við skólastjóra framhaldsskólans að koma á hestabraut við skólann.  Menntamálaráðuneytið hefur þegar gefið grænt ljós á áframhaldandi undirbúning og er stefnt að því að kennsla hefjist á brautinni næsta haust.  Verið er að undirbúa námsskrá sem miðar að stúdentsprófi frá brautinni með framhaldsnám við háskólann að Hólum í huga.

Stækkun Harðarbóls, álit fundarins, teikningar til sýnis

Með auknu félagafjölda hefur hugur okkar leitað að því hvort ekki væri kominn tími til að stækka Harðarból.  Það hefur sýnt sig að við eigum handlagið fólk sem er tilbúið að koma að praktískum verkefnum fyrir félagið og vinna helgi og helgi.  Rósa sem heldur utan um útleiguna telur, eins og við, að salur af þessari stærð, sem tekur 120 til 180 manns í sæti verði góð útleigustærð hér í Mosfellsbænum auk þess að þá væri hægt að halda árshátíð félagsins hér í húsnæðinu.  Við erum ekki að leggja til að steypa félaginu í skuldir vegna þessa frekar en vegna reiðhallarinnar, en byrja að mjaka þessu áfram með sjálfstæðri fjármögnun, fjárframlögum og styrkjum. Taka sökkla fyrst, en þá strax er komin stór stétt hér fyrir utan sem hægt er að tjalda yfir ef vill.  Gera síðan fokhelt. Klára svo að innan og að lokum opna hér vegginn á milli.  Nú þegar hefur verið gerð tillaga að viðbyggingunni, en það er teiknistofan Arkform sem hana gerði og gaf félaginu. Það væri gaman að heyra álit ykkar fundarmanna á þessu í almennum umræðum á eftir, teikningar hanga hér uppi á vegg.

Nýja frárennslið frá hverfinu

Nýja frárennslið frá hverfinu hefur ekki verið að anna því sem það á að anna, en nú hefur verið skipt um dælu og bætt við brunni.  Það dugar þó ekki til þar sem hluti hestamanna virðist líta á niðurfallið sem sorprennu og troða baggaböndum og plasti í það, auk þess að moka skít úr stíunum í niðurfallið.  Ég veit að það er enginn sem hér er staddur sem gerir þetta, en gott væri að þið létuð það ganga til félaga okkar sem ekki eru hér að svona gerir maður ekki.  Birgir Hólm mun fara yfir þessi mál hér á eftir og útskýra hvernig kerfið vinnur og af hverju það er jafn viðkvæmt og raun ber vitni.

Ný reiðhallarnefnd

Ný reiðhallarnefnd hefur tekið við rekstri reiðhallarinnar, en nefndina skipa allir menn í aðalstjórn og varastjórn.  Fjárhagur reiðhallarinnar er sjálfstæður og er ekki blandað við félagsreksturinn þannig að myndin af rekstri hvors um sig er gegnsær.  Þegar ákveðið var að fara í byggingu reiðhallarinnar var gert munnlegt samkomulag við þáverandi bæjarstjóra um það að þegar byggingin væri fullbyggð flyttist leigusamningur bæjarins við litlu reiðhöllina yfir á þá nýju og yrði hækkaður um helming, eða 3 millj. þar sem um mun stærra hús væri að ræða.  Þegar við gengum hins vegar eftir þessu við bæjarstjórnina varð róðurinn þungur, enda niðurskurðarhnífurinn á lofti og menn síst af öllu að sækjast eftir nýjum gjaldaliðum.  Við höfum hins vegar gert bæjarstjóra ljóst að reiðhöllin mun ekki reka sig án þessara leigutekna og lagt inn formlega umsókn um breyttan leigusamning, sú umsókn er nú í ferli.

Notkun reiðhallarinnar verður að mestu leiti á vegum æskulýðsnefndar, fræðslunefndar og nýstofnaðrar fræðslunefndar fatlaðra,  en félagar geta keypt sér rafrænan lykil og notað höllina þegar ekki eru þar formleg námskeið. Vellinum verður tvískipt, þannig að reiðkennsla getur verið í einum endanum og almennir félagsmenn við æfingar í hinum. Það verður bannað að fara inn í reiðhöllina með hest án slíks lykils.  Sjálfvirkt eftirlitskerfi heldur svo skrá yfir það hverjir eru í reiðhöllinni hverju sinni.  Rafrænn lykill mun áfram kosta 4.000.- kr. fyrir fullorðna, yfir 22 ára, og 2.000.- kr. fyrir ungmenni undir 22. ára aldri.

Það var frá upphafi markmið okkar og draumur að þjálfun fatlaðra ætti góða aðstöðu í reiðhöllinni og er allt fyrirkomulag hér miðað við að svo verði.  Stórar innkeyrsludyr og ríflegt framsvæði hér framan við reiðvöllinn gefa færi á að keyra inn bíla með fatlaða einstaklinga og sérstakri lyftu og öðrum búnaði verður komið hér fyrir til að auðvelda praktísku hlutina.  Það er mér sérstök ánægja að tilkynna hér að við erum búin að stofna fræðslunefnd fatlaðra hér í Herði, en þeirri nefnd er ætlað að halda utan um þennan fræðsluþátt.

Byggingu reiðhallarinnar hefur verið haldið utan við rekstrarliði félagsins svo þær stóru tölur skekki ekki samhengið í almennum rekstri félagsins, en efnahagsreikningur félagsins hefur bólgnað út úr rúmlega 30 milljónum árið 2007 í yfir tvö hundruð milljónir í dag, en það gerir Hörð að einu best stæða íþróttafélagi landsins.

Tap af reglulegum rekstri árið 2009

Eins og ég hef áður sagt er það ekki markmið okkar að skila miklum hagnaði, þeim fjármunum sem við öflum á að beina út í félagsstarfið þar sem þeir gera gagn.  Undanfarin ár höfum við skilað 200 til 300 þús.kr. hagnaði, alltaf verið réttu megin við núllið.  Árið 2009 varð þó 700 þús. kr. tap af rekstri félagsins, en það skýrist að mestu af árferðinu rétt eftir hrunið. Tap varð af Íslandsmóti barna og unglinga sem við héldum um mitt árið, en skráningar voru mun færri en árin áður auk þess að matarholurnar sem við sækjum styrki í þornuðu upp að hluta.  Það að velta félagsins hafi aðeins lækkað um eina milljón frá 2008 gengur kraftaverki næst, en það ber fyrst og fremst að þakka fjáröflunarnefndinni með Sigurð Teitsson í fararbroddi, þau hafa unnið frábært starf á erfiðum tímum. Við brugðumst við hruninu með sparnaði og gátum haldið kostnaði við mótið undir áætlun, en tekjurnar voru um einni og hálfri milljón minni en áætlað var.  Það má þó ekki gleyma því að Íslandsmótið skildi eftir sig margt gott, það þótti einstaklega vel heppnað, félagsandinn styrktist, allir vellirnir okkar eru nýuppteknir og eldunartækjum var bætt við í eldhúsið hér í Harðarbóli.   Árshátíð félagsins sem haldin var í Hlégarði árið 2009 var með 300 þús.kr.tapi, en því var snúið í 200 þús.kr. hagnað í ár.  Einnig var tvöfaldur reikningur frá endurskoðendum þar sem tveir reikningar voru bókfærðir árið 2009 upp á rúmlega 600 þús.  Í dag er bókhaldið fært í sjálfboðavinnu, en löggiltur endurskoðandi fer yfir það og áritar auk skipaðra skoðunarmanna félagsins.

Árið 2010 var sérstakt, rekstrarlega, þar sem hestapestin setti strik í reikninginn og varð að aflýsa fjölda móta og kennslutíma vegna hennar.  Það varð til þess að veltan af reglulegum rekstri félagsins, þegar ekki er litið til rekstrar reiðhallarinnar, minkaði úr um 14 millj. í tæpar 10 millj eins og sést á 10 mánaða uppgjöri fyrir árið 2010. Það varð hins vegar um tveggja milljón króna hagnaður á þessu tímabili þrátt fyrir þennan samdrátt sem gerir meira en að greiða upp tapið af árinu 2009, þannig að ef árin 2009 og 2010 eru lögð saman er rúmlega hálf milljón í tekjuafgang af hverju ári, sem er eins og við viljum hafa það.

Rekstur reiðhallarinnar gekk vel og sýnir að allar áætlanir þar standast, en veltan þar er tæpar 5 milljónir og var tekjuafgangur upp á um 200 þúsund.  Þetta verður þó að skoðast í því ljósi að enn höfum við ekki ráðið starfsmann í fullt starf við reiðhöllina, heldur er starfsemin rekin að mestu á sjálfboðaliðastarfi sem gengur ekki til lengdar.  Það vantar því hækkaðar leigutekjur bæjarins svo dæmið gangi upp.

Sigurður Guðmundsson fer betur yfir fjármálin hér á eftir.

Ég þakka svo öllum þeim sem hafa starfað fyrir félagið síðastliðið ár fyrir samstarfið,  það hefur verið virkilega gefandi og skemmtilegt að vinna með ykkur öllum að þeim verðugu verkefnum sem hér eru unnin.

Guðjón Magnússon, formaður

Engar athugasemdir bárust frá fundarmönnum um viðbyggingu Harðarbóls sbr. ræðu formanns.

 3. 4. og 6 Skýringar á reikningum félagsins, árshlutauppgjöri og áætlun næsta ár

Fundarstjóri þakkar Guðjóni fyrir skýrsluna og kynnir næsta dagskrálið, skýring reikninga félagsins og kynnina á 9. mánaða uppgjör. Sigurður Guðmundsson er kynntur þar sem Guðný Ívarsdóttir gjaldkeri er fjarverandi.

Sigurður tekur til máls. Löggiltur endurskoðandi, Þórhallur Björnsson, yfirfór og áritaði ársreikning. Einnig hafi kjörnu endurskoðendurnir Birgir Hólm og Leifur Kr. Jóhannesson yfirfarið og áritað reikningana. Áritanir eru án athugasemda.

Sigurður skýrir út ársreikninga félagsins sem liggja frammi og gefur mjög greinagóðar upplýsingar.  Einnig kynnir hann árshlutauppgjör út október 2010 sem og áætlun fyrir árið 2011.

5. Umræður um skýrslu stjórnar og reikninga félagsins.

Fundarstjóri þakkar Sigurði fyrir greinagóðar útskýringar og röggsemina að kynna áætlun næsta ár og afgreiða þá dagskrálið 6. Fundarstjóri óskar eftir athugasemdum frá fundarmönnum um ársreikninga.  Engar athugasemdir lagðar fram og því ber hann upp reikninginn til samþykktar og er hann samþykktur samhljóða með handaruppréttingu.

7. Árgjald ákveðið

Ekki eru gerðar tillögur að breyttri gjaldskrá fyrir árgjaldið. Árgjaldið er:

  • 12 og yngri félagsgjald kr. 0.- (frítt)
  • 13-20 félagsgjald kr. 2.000
  • 21-70 félagsgjald kr. 7.500

Þetta er samþykkt.

8. Lagabreytingar

Engar lagabreytingar voru lagðar fram fyrir aðalfund og því farið beint í dagskrárlið 9.

9. Kosningar skv. 6. grein laga félagsins

Formaður félagsins  Guðjón Magnússon gefur kost á sér til setu þriðja árið í röð og því er það síðasta árið sem hann má sitja skv. 6. grein laganna. Enginn annar gefur kost á sér og gengur fundarstjóri til atkvæðagreiðslu. Formaður er endurkjörin með lófaklappi.

Þrír meðlimir aðalstjórnar voru kosnir á síðasta aðalfundi í desember 2009 til tveggja ára. Það eru: Guðný Ívarsdóttir, Gyða Á. Helgadóttir og Sigurður Teitsson.

Því þarf að kjósa þrjá í aðalstjórn og þrjá í varastjórn. Þórir Örn Grétarsson gefur ekki kost á sér áfram.

Tillaga að stjórn:

Guðjón Magnússon formaður

Aðalstjórn: Guðný Ívarsdóttir, Gyða Árný Helgadóttir, Sigurður Teitsson, Hörður Bender, Sigurður Guðmundsson, Sigurður Ólafsson

Varastjórn: Guðmundur Björgvinsson, Ingimundur Magnússon, Ragnhildur Traustadóttir

Skoðunamenn reikninga: Leifur Kr. Jóhannesson og Birgir Hólm

Fulltrúar á þing UMSK: Auk formanns félagsins sem er sjálfkjörin er tillaga að formaður æskulýðsnefndar muni sitja þingið fh. Hestamannafélagsins Harðar.

Afreksmannasjóður: Auk formanns félagsins sem er sjálfkjörin er tillaga að gjalkeri félagsins sitji í nefnd um afreksmannasjóð.

Eftir kosningar lá eftirfarandi fyrir:

Samþykkt Guðjón Magnússon formaður

Samþykkt í aðalstjórn: Guðný Ívarsdóttir, Gyða Árný Helgadóttir, Sigurður Teitsson, Hörður Bender, Sigurður Guðmundsson, Sigurður Ólafsson

Samþykkt  í varastjórn: Guðmundur Björgvinsson, Ingimundur Magnússon, Ragnhildur Traustadóttir

Samþykktir skoðunamenn reikninga: Leifur Kr. Jóhannesson og Birgir Hólm

Samþykkt sem aðilar á þing UMSK: formaður félagsins (sjálfkjörin) og formaður æskulýðsnefndar.

Samþykkt í stjórn afreksmannasjóð: formaður félagsins(sjálfkjörin) og gjaldkeri félagsins

10. Önnur mál

Eftir stutt kaffihlé var fundinum haldið áfram.

1.  Birgir Hólm úr stjórn hesthúseigendafélagsins óskar eftir að taka til máls.

Birgir lýsir frárennslismálum í hesthúsahverfinu og því vandamáli sem hefur komið upp í austasta hluta neðra hverfisins. Neðst í neðra hverfinu er brunndæla sem hefur það hlutverk að taka við frárennsli frá hverfinu og dæla því upp í hreinsunarstöðina fyrir ofan og vesta hverfið. Þessi brunndæla hefur oft stöðvast vegna stíflu og hafa starfsmenn bæjarins fundið m.a. baggabönd og rúlluplast í niðurföllum. Hann áréttar að bannað sé að setja slíkt í niðurföllin og biður fólk að vera meðvituð um hvað sett sé í þau. Ef frárennsli stíflast þá getur skapast hætta í neðra hverfinu því heitt vatn getur flætt upp úr niðurföllum í neðra hverfinu sem getur haft skaðleg áhrif á hesta í þeim húsum sem og á húsin sjálf. Bærinn hefur talað um að mögulegt sé að setja aukabrunn sem fyrirferðamikill úrgangur getur farið í en ef vandamálið heldur áfram þá getur það orðið til þess að auka gjöld verði álögð vegna þessa.

Umræður:

Margrét óskar eftir að fá bækling / upplýsingar til hestamanna.

Eysteinn leggur til að orðsending verði sett inn á vefsíðu félagsins.

2.  Hreinn Helgason óskar eftir að taka til máls.

Hreinn segir frá því að ritnefnd ásamt Guðmundi á Reykjum og Helga dýralækni auglýsi eftir fundargerðabók síðan fyrir 20-30 árum.  Það fréttist af henni hjá einstakling en sá maður segist ekki hafa hana undir höndum. Það er búið að leita vel á loftinu í félagsheimilinu og hún hefur ekki komið í leitirnar.

Hreinn segir einnig frá nýjum reiðveg í dalnum sem byrjað er á en ekki er hægt að klára þar sem Helgafell ehf neitar að hleypa honum í gegnum land sitt en reiðvegurinn átti að liggja á landinum á 200 metra kafla.

Hreinn segir einnig frá því að umferð mótorhjóla um reiðveginn frá Fellsenda til Skógarhóla sé mjög mikil og leggur til að læsa hliðunum báðu megin til að sporna við umferð mótorhjóla um reiðveginn.

Ekki voru frekari umræður og býður fundarstjóri formanni orðið.

Lokaorð og fundarslit

Guðjón nýendurkjörinn formaður Harðar tekur til máls.

Við erum heppin í Herði því það er mjög gott að vinna með nefndarmönnum sem og stjórnarmeðlimum. Hann rifjar upp, þegar hann fyrst tók við sem formaður Harðar þá logaði síminn hjá honum en nú er mikið breytt. Nú vinna allir saman með góðu viðmóti enda er hestamennskan „hobby" og það á að vera gaman.

Guðjón upplýsir staðsetningu reiðleiðarinnar í dalnum sem Hreinn talaði um. Reiðleiðin liggur upp með Köldukvísl frá undirgöngum (við afleggjarann upp í Skammadal) og upp miðjan dalinn. Það er verið að gera þessa reiðleið því hætta getur skapast þegar ríðandi umferð fer um akveginn því það er blindhæð fyrir ofan bæinn hjá Pétri Jökli. Hann segir það koma sér á óvart að Helgafell ehf skuli neita lögn reiðvegarins en hann lofar að það muni verða unnið áfram í þessu máli. 

Guðjón segir frá því að stjórn Harðar hafi tekið ákvörðun um að hitta allar nefndir á fyrsta fundi aðalstjórnar eftir áramót, ein nefnd í einu.

 

Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 21.50

 

Fundargerð ritaði: Gyða Árný Helgadóttir