Samkomubann mótar íþróttastarfið


Landlæknir, sóttvarnarnalæknir og almannavarnadeild ríkislögreglustjóra telur ekki ráðlagt að gera ráð fyrir því að íþróttastarf fyrir leik- og grunnskólabörn íþrótta- og ungmennafélaga fari af stað fyrr en mánudaginn 23. mars næstkomandi. Íþróttaiðkun framhaldsskólanema og fullorðinna er talin heimil að uppfylltum ákveðnum og ströngum skilyrðum.

Yfirvöld segja ljóst að að þessi skilyrði munu því miður útiloka æfingar fjölmargra íþróttagreina.

UMFÍ og ÍSÍ hafa átt í samskiptum við almannavarnir um helgina í tengslum við samkomubann sem sett verður á Íslandi í kvöld og varir næstu fjórar vikur til að fá svör við því hvort æfingar barna og yngri flokka megi fara fram.
 
UMFÍ mælist til þess að sambandsaðilar UMFÍ og aðildarfélög fari að öllum tilmælum yfirvalda og leggi iðkendur ekki í hættu á að smitast af COVID-19 veirunni. Iðkendur eigi fremur að njóta vafans og því er mikilvægt að félög fylgi þeim fyrirmælum sem berast frá yfirvöldum. 


Íþróttaiðkun gegn ströngum skilyrðum
Yfirvöld telja íþróttaiðkun fullorðinna heimila að uppfylltum skilyrðum samkvæmt því sem fram kemur í auglýsingu um samkomubann og birt var fyrir helgi þess efnis að ekki séu fleiri en 100 einstaklingar inn í sama rými, hvort sem um er að ræða innan- eða utandyra. Þá skuli sjá til þess, eftir því sem unnt er, að hægt sé að hafa a.m.k. 2 metra á milli einstaklinga, gera ráðstafanir til að þrífa eða sótthreinsa búnað eða æfingasvæði daglega og tryggja aðgengi að hreinlætisaðstöðu til handþvotta og sótthreinsunar.

Íþrótta- og ungmennafélög eru hvött til að koma því á framfæri við iðkendur og félagsmenn hvað af íþróttastarfsemi þeirra þau telja að geti farið fram að uppfylltum þeim skilyrðum sem fram hafa komið. Rétt er að ítreka að það á ekki að gefa neinn afslátt af þeim kröfum sem yfirvöld hafa sett fram til að sporna við útbreiðslu þessarar veiru.