Árskýrsla Reiðveganefndar 2019

Reiðveganefnd Harðar :

Guðmundur Jónsson
Helgi Ólafsson
Ingólfur Á Sigþórsson
Jóhannes Oddsson
Ragnheiður Þórólfsdóttir
Sæmundur Eiríksson formaður

Reiðveganefnd hefur til ráðstöfunar á þessu ári eftirfarandi framlög :
Frá Landssambandi Hestamannafélaga til framkvæmda í Mosfellsbæ kr. 2.900.000,-.
Frá Mosfellsbæ til nýframkvæmda kr. 5.000.000,-
og til viðhalds reiðvega kr. 1.400.000,-
Samtals til reiðvegaframkvæmda hjá hestamannafélaginu Herði kr. 9.300.000,-

Helstu verkefni og framkvæmdir á vegum reiðveganefndar árið 2019 :

Reiðleið um Blikastaðanes var lagfærð. Borið var efni í veginn þvert yfir nesið og lagfærð leiðin umhverfis nesið.

Lokið var við nýja reiðveginn vestan við neðra hesthúsahverfið, keyrt var út yfirborðsefni á veginn og það brotið og heflað.

Keyrt var út efni og brotið á reiðgötur út frá hesthúsahverfi. Leiðin norðan hesthúsahverfis yfir vaðið á Varmá, upp með Köldukvísl um reiðgöngin á Tunguvegi og upp að göngubrú. Einnig leiðin frá efri reiðgöngum á Tunguvegi yfir á efra vaði á Varmá og norður að göngubrúnni á Köldukvísl. Auk þess voru lagfæringar á Tungubakkahringnum. Nýtt hefur verið sem ofaníburður á reiðleiðir næst hesthúsahverfinu malarefni úr hesthúsagerðum.

Við austurenda Úlfarsfells var sett ræsi í gilið og borið í reiðveginn út að Hafravatnsvegi.

Við Víðiodda var lagður nýr reiðvegur frá vaði sem var nokkur faratálmi á leiðinni upp Mosfellsdalinn, grýtt og erfitt yfirferðar ef mikið var í ánni. Nýi reiðvegurinn liggur nú um gamalt vað sem er ofar í ánni og er fyrir ofan ármót Norðurár og Suðurár.

Á leiðina með Köldukvísl milli Mosfellsvegar og golfvallar verður keyrt út yfirborðsefni.

Hafin er vinna við lagfæringu og endubætur á efri reiðgöngum á Tunguvegi með Varmánni. Tunguvegur var tekinn í notkun árið 2014 og í flóðum á hverju ári hafa Kaldakvísl og Varmá tekið með sér reiðvegarefnið úr undirgöngunum. Vonast er til að ástandið skáni eitthvað með þeim lagfæringum sem nú standa yfir.

Það er óbreytt staða með reiðleið ofan Reykjahvols og áfram yfir Varmá í Húsadal að reiðleið um Skammdal og allt útlit fyrir að reiðleiðin lokist vegna andstöðu landeiganda og húsbygginga ofan á reiðgötunni. Samþykkt hafði verið hjá Mosfellsbæ að reiðgata yrði færð upp fyrir húsin Reykjahvol 26, 28 og 30 til bráðabirgða áður en framkvæmdaleyfi fyrir húsbyggingum yrði samþykkt, en eins og staðan er núna er það ekki að ganga eftir.

Reiðgöng á Reykjavegi. Frá árinu 2008 hefur málið verið tekið upp á hverju ári á fundum með Vegagerð og Mosfellsbæ. Loks kom það fram á fundi með Vegagerð nú í apríl að fara ætti í framkvæmd á undirgöngum á þessu ári og göngin yrðu tilbúin fyrir áramót. Ekki gekk það eftir, póstur kom frá Vegagerðinni um það að framkvæmd yrði frestað fram á næsta ár.

Í sumar var sett bundið slitlag á Hafravatnsveginn frá Reykjavegi og að vesturenda Hafravatns. Hafravatnsvegurinn frá gatnamótum Úlfarsfellsvegar hefur verið notaður sem reiðleið sem er framhald af reiðleiðinni meðfram Úlfarsfelli. Reynt var að fá samþykki landeiganda til þess að leggja reiðveg öðru hvoru megin við Hafravatnsveginn en það leyfi fékkst ekki. Einnig var í sumar lagt malbiksfræs á fremsta hlutann af veginum í gegnum sumarbústaðahverfið við vesturenda Hafravatns.

Reiðleið frá hesthúsahverfi út að Brúarlandi hefur verið notuð fyrir umferð vegna byggingar á nýju íþróttahúsi við Varmárskóla. Gert er ráð fyrir að framkvæmdum ljúki um mánaðarmótin okt/nóv og ætti reiðleiðin að opnast um mánaðarmótin nóv/des 2019.

Reiðleið um Skarhólamýri upp að Úlfarsfelli verður notuð sem vinnuvegur við byggingu á vatnstanki sem reisa á upp í norðurhlíð Úlfarsfells. Byrjað er á jarðvinnu og gerð vinnuvegar. Gert er ráð fyrir að þeirri vinnu ljúki um miðjan maí 2020 og reiðleiðin opnist þá að nýju.

reiðleið1.JPG

Reiðleiðir um og út frá hesthúsahverfi, Tungubakkar.

reiðleið2.JPG

Reiðleið um Blikastaðanes

reiðleið3.JPG

Reiðleið um vað við Víðirodda.

 

reiðleið4.JPG

Reiðleið með Köldukvísl í Mosfellsdal.

 

reiðleið5.JPG

Reiðleið við Úlfarsfell, Hafravatnsveg og fyrirhuguð reiðleið um Reykjahvol og Húsadal. Reiðleið um undirgöng á Reykjavegi og um Skarhólamýri.