Reiðleið um Esjuhlíðar opnuð

Reiðleið um Esjuhlíðar opnuð

Þau gleði tíðindi urðu fimmtudaginn 29. ágúst, höfuðdag, að reiðleiðin / þjóðleiðin með Esjuhlíðum var opnuð á ný eftir lokun í hartnær 50 ár. Reiðleiðin liggur úr Kollafirði með Esjuhlíðum og kemur inn á reiðleiðina um Eyrafjallsveg neðan Tindstaða um 20 km leið.
Það var um 1970 sem landeigendur lokuðu þessari leið fyrir hestaumferð, leiðin hefur þó verið sýnd sem reiðleið á aðalskipulagi Reykjavíkur frá sameiningu Kjalarness við Reykjavík. Það hefur verið mikill vilji til þess meðal hestamanna að fá þessa gömlu leið opnaða aftur fyrir hestaumferð. Það hefur verið reynt af og til frá sl. aldamótum án árangurs fyrr en nú. Hitann og þungann af því að semja við landeigendur (sem eru fleiri en tuttugu) báru þeir Óðinn Elísson formaður hmf. Adams, Sigurbjörn Magnússon lögmaður og Grétar Þórisson Kirkjulandi og tókst þeim að koma því saman á undanförnum þremur árum
og hafi þeir þökk fyrir.
Reiðleiðin er höfð sem náttúrulegust, rétt helstu hindrunum rutt úr vegi og girðingar settar upp þar sem þurfti. Styrkur frá reiðvegasjóði LH 2.5 m. kr. ásamt styrk frá Vegagerðinni dugði til þess að klára verkið og einnig lögðu hestamenn í Kjósinni til vinnu og tæki í verkið. Rétt er að ámálga það að rekstur lausra hrossa er bannaður á reiðleiðinni.