Frá formanni

Miklar framkvæmdir hafa staðið yfir á Harðarsvæðinu.  Kerrustæði fyrir 70 kerrur hafa verið útbúin og verða þau merkt og boðin til leigu fljótlega.  Þannig getur leigutaki alltaf „gengið“ að sínu stæði.
Búið er að setja upp loftræstingu í reiðhöllinni.  Það var löngu orðið tímabært.  Það er líka búið að setja nýtt og öflugra hitakerfi undir áhorfendabekkina.  Með því fáum við betra flæði á heita loftið og um leið yljar það áhorfendum án þess að of mikill hiti myndist á reiðgólfinu.  Á næstunni verður þak reiðhallarinnar þétt, þakrennur og snjógildrur settar og í framhaldinu verður reiðhöllin þrifin.
Búið er að steypa stétt í kringum Harðarból og verið er að snyrta í kringum stéttina.  Félagsheimilið og gamli hluti þaksins verður málað.
Verið er að laga Hvíta gerðið og skipt verður um möl.
Beiðni félagsins sem breytingu á deiliskipulagi svæðisins með það í huga að fjölga hesthúsalóðum var tekin fyrir á bæjarráðsfundi í gær og var vísað til skipulagsnefndar.  Allir sem að koma eru jákvæðir, en enn er talsverð vinna eftir þar til að nýtt deiliskipulag verði samþykkt.
Félagið hefur lokið við umsókn sem fyrirmyndarféalg ÍSÍ, en slíkt þarf að sækja um og endurnýja á nokkurra ára fresti.  Við munum fá viðurkenningarskjal þess efnis væntanlega í næsta mánuði.
Þrátt fyrir allar þessar framkvæmdir, stendur félagið vel fjárhagslega og skuldar ekki neitt.  Í lok árs verður gerð framkvæmdaáætlun fyrir 2019.  Gott að fá ábendingar frá félagsmönnum, en gætið þess að reiðvegsframkvæmdir og lýsingar eru Mosfellsbæjar.  Þar getum við reynt að hafa áhrif, en framkvæmdin er hjá bænum.