Tilkynning til félagsmanna

Kæru félagsmenn.  Síðasta laugardag var haldið umdeilt einkasamkvæmi í félagsheimili Harðar.  Samkvæmið var haldið af nokkrum félagsmönnum í góðri trú og til styrktar reiðvegagerðar á svæðinu.  Það er ekkert nema gott um það að segja, nema að eitt af atriðunum var ekki við hæfi, sérstaklega í ljósi þeirrar neikvæðu umræðu sem slíkt atriði vakti í fyrra.  Okkur er sagt að slík atriði hafi verið á formlegum karlakvöldum Harðar um árabil eins og reyndar hjá fjölmörgum öðrum hestamanna- og íþróttafélögum.   Þetta  var einnig til siðs þegar kvennakvöld Harðar voru haldin, en þá var svipað atriði á dagskránni , en með karlmanni.   Sú umræða sem á sér stað í þjóðfélaginu í dag hefur gert það að verkum að slík atriði eru óviðeigandi  í aldursblönduðu félagi eins og okkar,  leifar úr fortíðinni.  Félagsheimilið okkar er leigt út til ýmissa uppákoma og fram að þessu höfum við ekki skipt okkur af því hvað þar fer fram svo fremi að það sé innan ramma laga og reglugerða.   Félagsmenn eru margir og í félaginu eiga að rúmast margar og mismunandi skoðanir þeirra einstaklinga sem í því eru.   Það er hinsvegar klár afstaða stjórnar félagsins að leifa ekki slík atriði í félagsheimilinu í framtíðinni.  Ef karlakvöld og/eða kvennakvöld Harðar verða haldin að ári verður það að vera með öðru sniði en hingað til.  Við hörmum þá neikvæðu umræðu sem orðið hefur um félagið vegna þessa, en lítum fram á veginn og tökum höndum saman um að gera gott félag enn betra.

Stjórnin