Hestaumferð í þéttbýli

Stjórn Hestamannafélagsins Harðar barst ábending um þrjár unglingsstúlkur sem riðu upp Háholtið og beygðu inn Þverholtið framhjá KFC, bæði hnakk- og hjálmlausar og fóru svo yfir Vesturlandsveginn, upp á umferðareyju og þaðan inn á Reykjaveg. Daginn eftir sást aftur til stúlknanna á ferð um Víðiteiginn.

Stjórn Harðar harmar mjög að slíkt skuli gerast. Bæði er þessi athöfn stórhættuleg fyrir umræddar stúlkur sem og aðra vegfarendur og hestana sjálfa. Í Mosfellsbæ eru margar góðar reiðleiðir sem á að nota. Það er með öllu bannað að ríða eða reka hesta um götur eða göngustíga í þéttbýli bæjarins. Í þessu sambandi viljum við biðja foreldra að ræða við börn og ungmenni sín um hvað má og hvað má ekki.

Hestar í þéttbýliVið getum ekki tekið til baka ef alvarlegt slys ber að höndum og rétt að minna á að við höfum bara einn líkama sem við þurfum að passa upp á og enginn hestamaður vill missa hestinn sinn í slysi, hvað þá að valda öðrum slysi. Brýnið það fyrir börnunum og sýnið fordæmi í reiðmennsku og notkun öryggisbúnaðar. Sjá bækling um hestaöryggi sem Landsamband hestamanna og VÍS hafa gefið út.

Einnig bendum við á lögreglusamþykkt fyrir Mosfellsbæ á slóðinni: http://mos.is/Samthykktirogreglur/Logreglusamthykkt/