Frá Formanni

Atvinnustarfsemi á Harðarsvæðinu

Í sívaxandi mæli hafa aukist kröfur okkar hestamanna um ýmsa þjónustu tengda sportinu.  Þar á meðal er flutningur á hrossum, ýmist á eigin kerrum eða með hestaflutningabílum.  Kerrustæðið fyrir norðan reiðhöllina var nýlega stækkað, en til þess að koma „atvinnu“kerrunum fyrir, þyrftum við að stækka það enn frekar.  Það kostar peninga og spurning um hver borgar.  Í bígerð er að ganga betur frá og afmarka kerrustæðin og leigja þau síðan út.  Þannig gæti leigutaki alltaf gengið að sínu kerrustæði.  Óformlegt mat er að þarna gæti verið stæði fyrir allt að 50 kerrur.

Sama gildir um rúllur og bagga, en heysalar hafa sumir verið með birgðir á svæðinu og reyndar líka utan þess svæðis sem hestamannafélagið hefur til umráða.  „Gamla“ svæðið við austurenda hverfisins var utan við félagssvæði Harðar og auk þess á verndarsvæði Varmár.  Mosfellsbær bað okkur því um að fjarlægja rúllurnar og til bráðabirgða fundum við nýjan stað vestan við gamla hringvöllinn.  Vegna kvartana gerði bærinn einnig athugasemdir við þá staðsetningu, en sú staðsetning var þó innan okkar svæðis.  Hugmynd stjórnarinnar var að prófa þetta svæði og ef vel reyndist að loka því af með mön allan hringinn og gróðursetja í mönina.  Leyfa ekki baggastæður sem væru hærri en sem möninni næmi.  Loka síðan svæðið af með hliði og leigja út stæði fyrir heybirgja.  Leigan stæði undir kostnaði við svæðið.  Það verður síðan alltaf sú lágmarkskrafa gerð að þeir sem nýta stæðið gangi vel um og hirði upp plast og annað rusl. 

Svo er það hin hliðin.  Á hestamannafélagið að þurfa að bjóða upp á aðstöðu fyrir atvinnurekstur.  Í rauninni er stórt spurt, því ef allir þeir sem þjónusta okkur með hestaflutninga, heysölu og tæmingu á skítaþróm, þyrftu og fengju aðstöðu fyrir birgðir og tæki, væri lítið pláss eftir fyrir annað.

Nk laugardag frá kl 9 – 13. verður stefnumótunarfundur okkar Harðarmanna í Harðarbóli. Þar gefst öllum félagsmönnum tækifæri á að láta rödd sína og skoðun hljóma.  Hvet ég alla félagsmenn til að mæta á fundinn.

kv

HákonH