Vorið er komið

Vorið er komið...

...og grundirnar gróa segir í kvæðinu góðkunna og á það svo sannarlega við um í dag því eins og öllum hestamönnum mun ljóst vera hefur grassprettan veriðmeðeindæmum lífleg í vor. 

Af þesssu tilefni hefur verið ákveðið að leyfa félögum sem hafa beitarhólf á leigu að sleppa hrossum í þau á morgun laugardaginn 3. Júní. Á það skal þó bent að grasspretta er nokkuð mismunandi milli hólfa og í sumum þeirra minna sprottið og mönnum bent á að gæta hófs í beit þar sem það á við. Ef hólfin eru lítið sprottin er beitin fljót að klárast sé of mörgum hrossum sleppt of snemma. Þetta þarf hver og einn að vega og meta.

Þá skal minnt á að gæta þarf að því að girðingarnar séu í góðu lagi og haldi hrossunum tryggilega inni því handsömunargjald á lausum hrossum er í dag himinhátt, krónur 28.000 á hest. Og því til mikils að vinna að halda hrossunum réttu megin vírsins.

Gengið verður frá frekari úthlutun hólfa til þeirra sem sóttu um en ekki hafa fengið úthlutað til þessa. Vonast er til þess að hægt verði að úthluta flestum þeirra sem sóttu um eitthvert hólf.

Þeir sem eiga eftir að sækja áburð verða að gera það nú um helgina því hætt verður að afhenda áburð á eftir þriðjudaginn 6. júní.

Beitarnefnd